Félagsbústaðir hafa hótað að rifta leigusamningi við íbúa í Asparfelli sem sýnt hefur af sér ógnvekjandi hegðun og hefur verið sakaður um rasisma. Mannlíf greindi frá.
DV greindi frá atferli mannsins þann 20. mars. Hafði hann þá birt myndbönd af börnum á leikskóla við heimili hans og viðhaft ógnvekjandi ummæli um börnin. Orðræða mansnins einkenndist af útlendingahatri en hann sagði undir einu myndbandinu:
„Erlendir krakkar eru farnir að tala blygðunarlaust útlensku á götunum. Þegar þeir komu hingað þá voru þeir svolítið hógværir og héldu sínum siðum í leynum en núna eru þeir farnir að gera þetta algengt og ætla að láta mann sætta sig við þennan djöfulsins viðbjóð. Ég er ekki ánægður með þetta. Ég mun aldrei sætta mig við þennan helvítis djöfulsins andskotans viðbjóð.“
Í öðru myndbandi amast maðurinn við því að erlendur maður sinni börnunum á leikskólanum.
Á Facebook-síðu sinni viðhefur maðurinn ýmis ummæli um útlendinga, til dæmis þessi: „Útlendingar eiga ekki að misskilja góðmennsku okkar sem veikleika.“
Maðurinn hefur nú birt skjáskot af bréfi sem hann fékk sent frá Félagsbústöðum með yfirskriftinni „Aðvörun vegna ætlaðra brot á leigusamningi“.
Í bréfinu segjast Félagsbústaðir hafa fengið kvartanir vegna ógnandi hegðunar og tilburða sem maðurinn hafi viðhaft undanfarið og hafi meðal annars beinst að fólki í nánasta umhverfi hans. „Þessi hegðun truflar daglegt líf og veldur nágrönnum kvíða og öryggisleysi gagnvart þér og sínum nánustu.“
Er manninum hótað að úthlutun á félagslegu húsnæði til hans verði afturkölluð ef hann bætir ekki hegðun sína. Er honum bent á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi heimild til að afturkalla úthlutunina og það muni leiða til þess að leigusamningi Félagsbústaða við hann verði rift. Manninum er gefinn kostur á að koma athugasemdum við lýsingum á brotum hans á framfæri innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins.