Nýlega ræddi Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS og sagði hann meðal annars að Pútín muni „mjög fljótlega“ ýta stríðinu yfir á yfirráðasvæði NATO ef hann verður ekki stöðvaður í Úkraínu.
Zelenskyy viðurkenndi að úkraínskar hersveitir séu ekki undir það búnar að verjast enn einni sókn Rússa og því hvatti hann Vesturlönd og þá sérstaklega Bandaríkin til að senda fleiri varnarvopn og fallbyssur og skotfæri til Úkraínu.
Hvað varðar næstu skref Pútíns eftir að hann hefur lokið sér af með Úkraínu sagði Zelenskyy að nú sé það Úkraína sem sé efst á blaði hjá Pútín, næst komi röðin að Kasakstan og síðan Eystrasaltsríkjunum og að þeim loknum sé röðin komin að Póllandi og þar á eftir Þýskalandi. Að minnsta kosti helmingnum af Þýskalandi.