Öryggismiðstöðin hefur sent frá sér tilkynningu vegna innbrots og stórþjófnaðar í verðmætaflutningabíl í Hamraborg í gærmorgun. Staðfestir Öryggismistöðin að um var að ræða innbrot í bíl á vegum fyrirtækisins.
„Fjármunir voru í sérhæfðum læstum verðmætatöskum sem búnar eru litasprengjum sem eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til þess að nálgast þau. Öll verðmæti i flutningi Öryggismiðstöðvarinnar eru tryggð gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni er jafnframt lögð áhersla á að starfsfólki hafi ekki verið hætta búin þar sem um hafi verið að ræða innbrot í bílinn en ekki vopnað rán. Ennfremur segir: „Atvik sem þessi leiða alltaf til ítarlegrar skoðunar á verklagsferlum.“
Öryggismiðstöðin segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið á þessu stigið þar sem málið er í rannsókn lögreglu.