Manni sem ákærður er fyrir peningaþvætti hefur verið birt fyrirkall og ákæra í Lögbirtingablaðinu, þar sem ekki næst í manninn. Fyrirtaka verður í máli mannsins 2. maí næstkomandi við Héraðsdóm Reykjaness. Í fyrirkallinu segir:
„Ákærði er kvaddur til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi. Sæki ákærði ekki þing, við þingfestingu máls eða á síðari stigum þess, má hann búast við því að fjarvist hans verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið brot það sem hann er ákærður fyrir og dómur verði lagður á málið að honum fjarstöddum. Birtingarfrestur er einn mánuður.“
Maðurinn, sem er Pólverji, fæddur árið 1981, var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 16. september 2023, er hann var á leið í flug til Varsjár í Póllandi. Í fórum sínum hafði hann rétt tæplega tvær milljónir króna í reiðufé. Er hann ákærður „fyrir peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu 2. desember 2023 til 4. desember 2023 tekið við samtals kr. 1.990.000 í reiðufé frá óþekktum aðila eða aðilum en ákærða gat ekki dulist að um væri að ræða ávinning af sölu og dreifingu fíkniefna og eftir atvikum öðrum refsiverðum brotum,“ eins og segir í ákæru.
Ennfremur segir í ákærunni: „Með háttsemi sinni móttók ákærði ávinning af refsiverðum brotum, geymdi ávinninginn, flutti og leyndi ávinningnum og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans.“
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að féð sem lögreglan tók af manninum og haldlagði verði gert formlega upptækt og varðveitt sem innistæða á bankareikningi Lögreglustjórans á Suðurnesjum.