Frá þessu er greint á vefnum Bakersfield.com en Vísir greindi einnig frá málinu í dag.
Daníel var dæmdur í fangelsi fyrir morðið á skólasystur sinni, Katie Pham, þann 18. maí 2021. Vikurnar fyrir morðið höfðu Katie og Daníel átt í stuttu ástarsambandi en hann neitaði sök í málinu.
Lík Pham fannst í bílskúr á heimili stjúpföður Daníels og var Íslendingurinn handtekinn á vettvangi. Faðir hans er Íslendingur en móðir hans frá Tékklandi. Mæðginin fluttu til bæjarins Ridgecrest fyrir nokkrum árum síðan. Þar gekk hann í skóla og kynnist þar Katie Pham.
Í frétt Bakersfield kemur fram að Daníel hafi verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barnungri stúlku. Er hann meðal annars ákærður fyrir lostafulla háttsemi með einstaklingi undir 14 ára og fyrir kynferðislegt samneyti með barni undir 10 ára. Ekki kemur nákvæmlega fram í frétt Bakersfield í hverju brotin fólust en þau eru sögð hafa átt sér stað á árunum 2016 til 2021.
Auk ofangreinds hefur hann verið ákærður fyrir vörslu á efni sem sýndir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.
Daníel var dæmdur í 27 ára til lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Pham en hún var með fjölda stunguáverka á líkama og höfði sem drógu hana til dauða, en talið er að Daníel hafi stungið hana með ísnál. Þá var honum gefið að sök að hafa snert lík Pham með kynferðislegum hætti og var búið að fletta upp skyrtu hennar og toga buxurnar niður þegar lögregla kom að henni látinni á dýnu á gólfi bílskúrsins.