fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Kona sem dreifði nektarmyndum af fyrrverandi eiginmanni og ástkonu hans þarf að greiða háar fjárhæðir

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 19. mars 2024 16:00

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona á Suðurnesjum sem hafði verið sýknuð í Héraðsdómi Reykjaness af ákæru um kynferðisbrot var sakfelld fyrir brotið í Landsrétti síðastliðinn föstudag. Brotið fólst í því að konan dreifði til þriðja aðila mynd af getnaðarlimi fyrrverandi eiginmanns síns og tveimur nektarmyndum af ástkonu hans. Þetta gerði hún gert án samþykkis eiginmannsins og umræddrar konu.

Háttsemi konunnar var kærð til lögreglu í ágústmánuði árið 2020. Konan gekkst við því að hafa dreift þessum myndum í tölvupósti en um var að ræða skjáskot sem hún hafði fundið á messenger og höfðu gengið á milli eigimannsins og ástkonu hans.

Ákæruvaldið byggði mál sitt á því að komin væri fram sönnun um að konan hefði með þessu athæfi framið verknað sem fellur undir 209. greina almennra hegningarlaga, en hún er svohljóðandi:

„Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þ.m.t. falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“

Dómari í Héraðsdómi taldi háttsemi konunnar ekki brjóta gegn þessari lagagrein þar sem hún hafi ekki verið af kynferðislegum toga. Taldi dómari að lagagreinin geri ráð fyrir athæfi sem sprottið er af lostugum huga. Dómari benti á að í lagafrumvörpum eða öðrum lögskýringargögnum sé hvergi að finna hvert sé inntak hugtaksins „lostugt athæfi“ en skýring á hugtakinu hafi verið mótuð af dómstólum og „þeir lagt þann skilning í hugtakið að með því sé átt við athöfn af kynferðislegum toga sem gengur skemmra en samræði og önnur kynferðismök“.

Landsréttur ósammála

Landsréttur sneri þessum dómi við og sakfelldi konuna á grunni þess að hún hefði brotið gegn ofanefndri lagagrein enda léki enginn vafi á því að hún hefði sent umrætt myndefni. Er það túlkun Landsréttar að ekki sé áskilið samkvæmt ákvæðinu að kynferðislegar hvatir liggi að baki háttseminni. Hún hafi verið af kynferðislegum toga óháð hugarástandi sendandans. Ennfremur segir í niðurstöðu Landsréttar:

„Ljóst er af myndunum og textaskilaboðum, sem þeim fylgdu þegar þau voru send milli brotaþola, að þau lutu að kynferðislegum samskiptum um einkamál þeirra. Þá verður ekki annað ráðið af framlögðum myndum en að þær séu teknar af brotaþolum fáklæddum eða nöktum í rúmum sínum og því við viðkvæmar aðstæður. Við þessar aðstæður verður að telja að sending ákærðu á nektarmyndum af brotaþolum til kvennanna tveggja hafi verið af kynferðislegum toga.“

Milljónareikningur

Þó að konan fái vægan dóm hjá Landsrétti lítur út fyrir að málið muni reynast henni þungt fjárhagslega. Er hún dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. En hún þarf auk þess að greiða 3.254.256 kr. í áfrýjunarkostnað. Auk þess er dómur héraðsdóms ómerktur hvað varðar einkaréttarkröfur brotaþolanna, parsins sem konan dreifði myndum af.

Karlinn hafði krafist tveggja milljóna króna í miskabætur og konan tæplega einnar milljónar. Bótakröfunum var vísað frá héraðsdómi en Landsréttur hefur nú gert héraðsdómi skylt að fjalla um þær aftur. Í ljósi þess að búið er að snúa við sýknudómnum og sakfella konuna má fastlega búast við því að hún verði dæmd til að greiða parinu miskabætur. Óvíst er hve háar þær verða en sjaldan eru dæmdar miskabætur í samræmi við kröfur.

Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg