Helgi skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið um þetta mál.
„Árið 1963 hvarf í Vestmannaeyjum 26 ára gamall Ungverji, Imre Bácsi. Hann var „ljúfur og indæll drengur“ eins og einn heimildarmaður segir. Imre hafði þá dvalist í Eyjum í sjö ár og unnið lengst af í Vinnslustöðinni. Ekki liggur fyrir hvað af honum varð,“ segir hann í upphafi greinar sinnar og bendir á að Imre hafi verið í hópi þeirra 52 ungversku flóttamanna sem komu til Íslands undir árslok 1956.
Af þessum rúmlega 50 flóttamönnum fóru 10 til Vestmannaeyja, tvær fjögurra manna fjölskyldur, Horváth og Duzsík, auk tveggja einstaklinga, Istvan Juhasz og Imre Bácsi.
„Sumt af þessu fólki man ég vel sem barn og unglingur í Eyjum. Ein úr hópnum, jafnaldra mín og þá nágranni, lifir enn og býr hér á landi,“ segir Helgi.
Hann tók sig til fyrir um fjórum árum og skrifaði grein sem birtist í jólablaði Fylkis í Eyjum um komu Ungverjanna til Vestmannaeyja. Gat Helgi rakið afdrif allra þeirra, nema Imre Bácsi. Byggðist greinin á minningum hans sem og munnlegum og skriflegum heimildum.
„Fjölskyldurnar tvær fóru frá Eyjum eftir fjögur ár, fluttust fyrst á Suðurnes en fóru svo þremur árum seinna aftur til Ungverjalands þegar grið voru heitin þeim flóttamönnum sem aftur sneru. Istvan og Imre urðu hins vegar eftir í Eyjum og Istvan (1935-2004) festi ráð sitt fljótlega og bjó þar til æviloka. Imre (f. 1936) vildi líka búa eitthvað áfram í Eyjum og vinna þar. En síðan hverfur hann úr sögunni, sporlaust að því er virðist. Í grein minni gat ég ekki skrifað neitt með vissu um afdrif Imre þótt ég reyndi að kanna málið, heyrði þá aðeins lauslega getgátur.“
Helgi segir óskiljanlegt að enginn skyldi hafa tilkynnt lögreglunni í Eyjum um hvarf Imre eftir svo langa búsetu hans hér á landi – og segir Helgi engu líkara en hann nyti ekki fullra mannréttinda. Þá segir hann að enginn virðist hafa grennslast nánar fyrir um hvað af honum varð.
„Þetta mál hefur valdið mér talsverðum heilabrotum. Við frekari eftirgrennslan eftir að Fylkis-blaðið kom út fann ég nokkrar heimildir um vinnu Imre og dvöl í Eyjum, hina síðustu frá því í maí 1963 (útsvarsgreiðsla til bæjarins). Nafn hans og heimilisfang reyndist svo vera á íbúaskrá þar 1963, en hann er strikaður út af henni 1965 án athugasemda.“
Helgi segist hafa heimild fyrir því að Imre hafi sagt samlöndum sínum, er þau kvöddu hann og héldu brott frá Eyjum haustið 1960, að hann vildi fara heim til Ungverjalands, en kæmi á eftir þeim eitthvað síðar og léti þá vita af sér.
„Hann fékk einum úr hópnum miða með nafni móður sinnar og heimilisfangi hennar. Þegar sá hafði samband við móðurina, nokkru eftir að hann var kominn til Ungverjalands á ný, hafði hún ekkert heyrt frá Imre, syni sínum.“
Helgi kveðst hafa gert ýmsar tilraunir, meðal annars í Ungverjalandi, til að kanna hvort Imre hafi snúið aftur til heimalands síns en engar heimildir séu um það. „Ég hef samt ástæðu til að ætla að upplýsingar kunni að liggja fyrir um afdrif Imre,“ segir hann í grein sinni.
„Spyrja má hvern varði nú um örlög flóttamanns sem kom hingað fyrir 67 árum? En þá verður að hafa í huga að nær samhuga þjóð veitti honum hér skjól haustið 1956 eftir innrás Rússa í Ungverjaland. Hvílir ekki á okkur sú skylda að vita hvað varð um þá flóttamenn sem við tókum að okkur og veittum vernd?“
Helgi biðlar til lesenda að hafa samband ef einhver veit meira en hann um afdrif Imre Bácsi.
„Muna einhverjir eftir honum við störf í Vestmannaeyjum eða annars staðar og höfðu af honum kynni,“ spyr hann og lætur símanúmer sitt fylgja með greininni í Morgunblaðinu og netfangið helgi.bernodusson[hjá]gmail.com. „Þá mætti e.t.v. ljúka þessari sögu,“ segir hann.