Eldgos er hafið á Reykjanesskaga. Þetta kemur fram í frétt mbl.is og í ábendingum frá íbúum á Reykjanesi.
Á vefmyndavélinni livefromiceland má sjá að gossprungan er strax orðin verulega löng.
Eldgosið er milli Hagafells og Stóra Skógfells og hófst eftir skammvinna skjálftavirkni í kvöld, að sögn RÚV. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands er gosið fremur nær Stóra-Skógfelli á svipuðum stað og gosið 8. febrúar.
Einmitt þegar eldgosið var að hefjast barst tilkynning frá Veðurstofu um að jarðskjálftavirkni við Sundhnúkagígaröðina væri að aukast verulega og Veðurstofa Íslands komin í viðbragðsstöðu, en það gæti bent til þess að kvikuhlaup væri að hefjast og auknar líkur séu á eldgosi. Aðeins 11 mínútum seinna sendi Veðurstofan staðfestingu á að gos væri hafið.
Fyrirvarinn var mjög stuttur að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvásérfræðings Veðurstofunnar, en hann sagði í samtali við Vísi að of snemmt sé að segja til um hvort hér sé á ferðinni stórt gos. Gossprungan sé þó að opnast hratt og verði líklega mjög löng eins og í fyrri gosum.
Búið er að lýsa yfir neyðarstigi hjá Almannavörnum og er þyrla landhelgisgæslunnar á leið í loftið. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir hjá Almannavörnum í samtali við Vísi. Síðustu nætur hafi verið gist í 5-10 húsum í Grindavík auk þess sem fólk hafi verið á Svartsengissvæðinu og í Bláa Lóninu. Rýming gengur vel og töluvert af bílum eru nú að aka Grindavíkurveginn.
Uppfært:20:58-Samkvæmt tilkynningu Veðurstofunnar berst gosmökkurinn til norðvestur. Fyrsta staðsetning byggi á radargögnum og má sjá miðju gossprungunnar á kortinu hér að neðan sem rauðan punkt.
Sjá má bjarmann frá gosinu á höfuðborgarsvæðinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Áfram berast myndir. Næstu tvær sýna eldgosið frá Innri-Njarðvík
Vefmyndavél mbl.is fangaði stundina þegar gosið hófst um 20:20 í kvöld, en hægt er að spóla til baka í spilaranum hjá miðlinum til að berja þetta eigin augum.