Skiptum er lokið í þrotabúi Já iðnaðarmenn verkstæði ehf. en framkvæmdastjóri þess var Jóhann Jónas Ingólfsson, þekktur kennitöluflakkari sem státar af löngum afbrotaferli. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í byrjun janúar 2020 og því tók rúm fjögur ár að ljúka skiptunum. Samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í morgun var var kröfum upp á tæpar 75 milljónir króna lýst í búið en eins og vænta mátti fundust engar eignir í búinu.
Jóhann Jónas auglýsti verktakaþjónustu undir nafni Já iðnaðarmanna en þetta er í þriðja sinn sem athafnamaðurinn rekur félag með þessu eða sambærilegu nafni í þrott. Fyrst fór slíkt félag í þrot árið 2017 en starfsemin hófst umsvifalaust á nýrri kennitölu. Það félag fór síðan í þrot ári síðar og þá hófst reksturinn undir nafni Já iðnaðarmenn verkstæði ehf, sem fór í þrot rúmu ári síðar.
Þessi slóð gjaldþrota hefur þó ekki stöðvað Jóhann Jónas sem enn heldur ótrauður áfram rekstri á nýjum kennitölum. Undanfarið hefur hann rekið félagið Húsaviðgerðir og fleira ehf. sem skráð er á nafn móður hans sem er fædd árið 1939. Samkvæmt heimildum DV er þess ekki langt að bíða að sá rekstur fari sömu leið og fyrri félög og ekki langt að bíða að reksturinn verði færður yfir á önnur fyrirtæki sem þegar hafa verið stofnuð á nafni móður hans.
DV hefur ítrekað fjallað um feril Jóhanns Jónasar á undanförnum árum en auk kennitöluflakks hafa eftirlitsaðilar reglulega haft afskipti af rekstri hans vegna meintra brota á iðnarlögum þar sem ófaglærðir starfsmenn hafi verið settir í verkefni án þess að hafa tilskilin réttindi til að vinna. Hafi viðskiptavinir margir hverjir setið eftir með sárt ennið.
Sjá einnig: Jóhann Jónas fékk ráðningarstyrki frá Vinnumálastofnun
Þá auglýsir hann grimmt eftir starfsfólki í hin ýmsu verk hjá Húsaviðgerðum og hefur auglýsingum fyrirtækisins verið dreift inn á fjölmörg heimili á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Jónas á að baki langan afbrotaferil en hann var fyrst handtekinn fyrir þjófnað árið 1974 en ákæru var frestað skilorðsbundið. Þremur árum síðan fékk hann tvo skilorðsbundna dóma fyrir þjófnað. Í frétt Pressunnar í september 1992 kemur fram að Jóhann, sem þá var 35 ára gamall, hafi komist yfir tuttugu sinnum í kast við lögin á átján árum en í kjölfarið fylgdu dómar fyrir innflutning á fíkniefnum og nauðgun. Flúði Jónas meðal annars land undir lok síðustu aldar og sneri ekki aftur fyrr en dómur yfir honum var fyrndur.
Hér geta lesendur lesið ítarlegri umfjöllun um feril athafnamannsins