fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Tommi á Búllunni: „Ég var farinn að sakna þess að vera timbraður“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 13. mars 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmaðurinn Tómas A. Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni, tók þátt í áhugaverðum umræðum á Alþingi í vikunni um fíknisjúkdóminn. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, óskaði eftir sérstakri umræðu á þriðjudag um þann vanda sem blasir við vegna fíknisjúkdóma sem draga um eitt hundrað Íslendinga til dauða á hverju ári.

Inga benti á í hvaða neyðarhemla ríkisvaldið myndi grípa ef til dæmis 100 einstaklingar létust á ári í bílslysum.

„Hvað er það sem verður þess valdandi að yfir 700 einstaklingar eru á biðlista eftir hjálp inni á sjúkrahúsum vegna veikinda sinna? Hvað er það sem verður þess valdandi að fárveikt fólk sem er búið að leggja það á sig mánuðum saman að leita sér hjálpar — það hefur komist í meðferð, það lagt það á sig að fara í langtímameðferð, það er gjörsamlega að bugast, það leggur það á sig að vera burtu mánuðum saman í meðferð. Það kemur bjartsýnt og brosandi út í samfélag sem því miður virðist vera þannig úr garði gert að það er ekkert utanumhald nema utan um örfáa. Það eru til úrræði en bara allt, allt of fá úrræði fyrir svo allt of marga.“

Fór í meðferð erlendis

Tómas sjálfur þekkir alkóhólisma af eigin raun og í á Alþingi sagði hann að um alvörusjúkdóm væri að ræða.

„Sá sem hér stendur þekkir þennan sjúkdóm ágætlega. Ég fór sjálfur í meðferð á sínum tíma og hef kynnt mér þessi mál til hins ýtrasta, farið nokkrum sinnum á Hazelden sem er nú Mekka, ef ég má svo að orði komast, í meðferðarstöðvum og fleiri meðferðarstöðvar, Edgehill sem dæmi, og hef verið í stöðugu sambandi við þá sem eru að kljást við þennan sjúkdóm,“ sagði Tómas en ræddi svo muninn á fíknisjúkdómum og öðrum sjúkdómum.

„Vandinn er að munurinn á fíknisjúkdómum og öðrum sjúkdómum er sá að sá sem er haldið þessum sjúkdómi hefur sterka tilhneigingu til þess að vilja ekki viðurkenna að hann sé veikur. Það stendur einhvers staðar í inngangsorðum AA-samtakanna: Enginn getur hætt drykkjuskap nema hann vilji það sjálfur. Það er nú vandamálið, að það þarf að fá viðkomandi sjúkling til að átta sig á því að hann sé veikur.“

Tommi benti á að hér á landi væru meðferðarúrræði til staðar en spurði svo hvað tæki við þegar fólk kemur úr meðferð.

„Sjáið þið, maður kemur út úr meðferðinni eftir 28 daga og tíu daga í afvötnun og þá veit maður allt um þetta og maður er alveg með það á hreinu. En svo fennir í sporin og fólk gleymir og allt í einu var þetta ekki eins slæmt og það var. Ég upplifði það á sínum tíma í fyrra skiptið sem rann af mér að ég var farinn að sakna þess að vera timbraður. Svo loksins þegar ég byrjaði aftur að drekka mundi ég að ég saknaði þess ekki. En svona er nú sjúkdómurinn hættulegur.“

Þarf ekki annað en að fletta minningargreinunum

Margir þingmenn tóku þátt í umræðunum og sagði Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, að staðan væri alvarleg.

„Það þarf ekki annað en að fletta minningarsíðum Morgunblaðsins til að sjá hversu grafalvarleg staðan er. Fíknisjúkdómar herja á ungt fólk og þessar síður bera þess merki. En af hverju eru ekki meiri viðbrögð við þessari grafalvarlegu stöðu, eins og háttvirtur þingmaður Sigmar Guðmundsson kom hérna inn á áðan? Af hverju er ekki þjóðarátak, landssöfnun og allt þar á milli? Ég vil meina að það sé vegna fordóma sem enn grassera í samfélaginu, neikvæðra viðhorfa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg