Mikill viðbúnaður var við Þingvallavatn í dag. Lögreglu barst tilkynning um 11 þar sem sagði að sést hefði til ökutækis á vestanverðu Þingvallavatni sem hafi farið niður um ís. Björgunarsveitir, slökkvilið, sjúkraflutningamenn og þyrla Landhelgisgæslunnar voru boðuð á vettvang til leitar og hugsanlegrar björgunar. Kafasveit sérsveitar ríkislögreglustjóra var eins í viðbragðsstöðu. Nú segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi að viðbragðsaðilar hafi skoðað svæðið vel og ákvörðun tekin um að hætta frekari leit þar sem engin ummerki sjást á vatninu. Aðstæður til leitar eru góðar og var svæðið skoðað vel úr þyrlu og með drónum. Eins voru bakkar vatnsins skoðaðir vel.