Bowen rann illa í hálku með þeim afleiðingum að hann höfuðkúpubrotnaði og blæðing kom inn á heila.
Lesa má sögu Bowens á vefsíðunni GoFundMe en um er að ræða síðu þar sem hægt er að styrkja hin ýmsu málefni.
Á vefsíðunni kemur fram að Bowen hafi verið hér á landi með eiginkonu sinni, Liz, og tveimur sonum, Tyler og Mead, þegar hann rann í hálku þegar hann var að fara yfir götu á gamlárskvöld.
Bowen slasaðist alvarlega í slysinu; höfuðkúpubrotnaði, blæðing kom inn á heila og þurfti hann gangast undir bráðaaðgerð á heila. Til að bæta gráu ofan á svart fékk hann svæsna lungnabólgu eftir slysið og lamaðist að hluta. Þá var hann ófær um að tala lengi vel eftir slysið.
Bowen var haldið á Landspítalanum í nokkrar vikur en þann 22. janúar fékk hann grænt ljós á að fljúga heim til Bandaríkjanna í fylgd heilbrigðisstarfsfólks.
Það er ekki ókeypis fyrir ósjúkratryggða einstaklinga að dvelja á sjúkrahúsum erlendis og í færslu aðstandenda hans kemur fram að kostnaðurinn hafi verið „stjarnfræðilegur“.
Var stefnt á að safna 200 þúsund Bandaríkjadölum, tæpum 30 milljónum króna, en samkvæmt talningu á vef GoFundMe hafa safnast tæpir 38 þúsund dalir, 5,3 milljónir króna.
Í færslunni kemur fram að fjölskylduna hafi lengi dreymt um að heimsækja Ísland og verið búin að safna pening í talsverðan tíma til að láta þann draum rætast. Ferðin breyttist hins vegar í martröð eins og að framan greinir en þetta er ekki fyrsta áfallið sem Bowen lendir í á lífsleiðinni.
Bowen var dýralæknir en neyddist til að hætta störfum af heilsufarsástæðum eftir að hafa veikst alvarlega af bartonella-bakteríunni sem getur borist í menn með kattaflóm. Þurfti Bowen að gangast undir lifrarígræðslu í kjölfarið.
Í síðustu uppfærslu af máli Bowens þann 22. janúar kom fram að hann væri á góðum batavegi eftir öndunarfærasýkinguna. Stóð til að flytja hann með sjúkraflugi til Bandaríkjanna þann 29. janúar síðastliðinn og flytja hann á sjúkrahús þar þar sem hann færi í frekari endurhæfingu.
„Fyrir hönd Gary og fjölskyldu hans, þá þakka ég fyrir stuðninginn frá dýpstu hjartarótum,“ segir í færslu sem Lisa Anastasi, frænka Bowens, skrifaði á GoFundMe.