Útför Hildar Hermóðsdóttur, kennara og bókaútgefanda, fór fram frá Bústaðakirkju í dag. Hildur lést á Hrafnistu Boðaþingi sunnudaginn 18. febrúar síðastliðinn, 73 ára að aldri.
Sjá einnig: Hildur Hermóðsdóttir er látin
Árið 2000 stofnaði Hildur Bókaútgáfuna Sölku ásamt Þóru Sigríði Ingólfsdóttur, Hildur tók alfarið við útgáfunni árið 2002 og rak hana til haustsins 2015 að hún seldi fyrirtækið og stofnaði Textasmiðjuna.
Núverandi eigendur Sölku, Anna Lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín, minnast Hildar með hlýhug í færslu á Facebook. Segja þær Hildi hafa verið langt á undan sinni samtíð og ávallt trú sinni hugsjón. Þær stöllur hafi verið lánsamar að vinna með Hildu, sem bóksalar, sem nýir eigendur Sölku og að lokum sem útgefendur bókar Hildar, Ástin á Laxá.
„Hildur Hermóðsdóttir stofnandi Sölku var jarðsungin í dag. Hildur ruddi nýjar brautir í íslenskri bókaútgáfu með stofnun Sölku. Hún lagði áherslu á að gefa út bækur eftir konur og um konur og var það nýlunda í bransanum hér á landi. Að auki var forlagið í eigu kvenna og konur fóru með ritstjórnarvald. Bækur sem áður höfðu ekki fengið brautargengi litu dagsins ljós.
Hildur var ávallt trú hugsjón sinni og byggði upp sterka bókaútgáfu sem ögraði viðteknum venjum. Tíminn hefur leitt í ljós að Hildur var á undan sinni samtíð á margan hátt, bæði hvað varðar jafnrétti í bókaútgáfu, kvennabaráttu og náttúruvernd.
Við vorum svo lánsamar að fá tækifæri til að vinna með Hildi, bæði sem bóksalar á árum áður og svo þegar hún treysti okkur fyrir að varðveita arfleifð sína undir merkjum Sölku. Fallegum hring var lokað þegar Hildur gaf út bók sína, Ástin á Laxá, hjá okkur. Þar sagði hún sögu fjölskyldu sinnar og sveitunga á ljóslifandi hátt. Hún fangaði ástina á náttúrunni og brá upp myndum af fólkinu sem verndaði hana með samheldni og eldmóð að vopni. Eldmóður Hildar dvein aldrei og hennar hjartans mál voru engum dulin. Hún skrifaði söguna í mörgum skilningi.
Sölkurnar,
Anna Lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín“