fbpx
Miðvikudagur 14.maí 2025
Fréttir

Vildarpunktar þingmanna höfðu betur gegn Play – Rammasamningurinn stendur

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 20. febrúar 2024 14:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flugfélagið Play freistaði þess að bera vildarpunktasöfnun Alþingismanna undir kærunefnd útboðsmála. Ekki bar sú tilraun erindi sem erfiði en kærunefndin hafnaði öllum kröfum Play í málinu, í úrskurði sem féll í gær.

Undanfarin ár hefur nokkuð verið fjallað um þau afleiddu fríðindi sem opinberir starfsmenn njóta í formi vildarpunkta. Það er, þegar vinnuferðir eru kostaðar af opinberu fé, þá safna starfsmenn engu að síður vildarpunktum í eigin nafni og geta ráðstafað punktunum að vild.

Ólögmætt og ómálefnalegt

Þetta fyrirkomulag kærði Play til kærunefndar útboðsmála, en kærunni beindi Play að Alþingi, Icelandair og Ríkiskaupum. Play sagði að um væri að ræða ólögmæta og ómálefnalega framkvæmd Alþingis á rammasamningi Ríkiskaupa við Play og Icelandair um flugsæti í áætlunarflugi flugfélaga á Íslandsmarkaði. Vildi Play fá það staðfest að þessi framkvæmd væri ólögmæt, að hún hafi valdið Play tjóni og að óheimilt sé að gefa opinberum starfsmönnum persónulega vildarpunkta í skiptum fyrir kaup hins opinbera á þjónustu. Vildi Play að rammasamningurinn yrði lýstur óvirkur gagnvart Icelandair eða að honum yrði markaður styttri gildistími.

Það var í febrúar 2023 sem Ríkiskaup auglýsti rammasamningsútboð um flugsæti fyrir hönd áskrifenda að rammasamningum stofnunarinnar. Óskað var eftir tilboðum um föst afsláttarkjör á flugsætum í áætlunarflugi á Íslandsmarkaði, innanlands eða erlendis á þeim flugleiðum/-leggjum sem aðilar væru með í boði hverju sinni. Um miðjan mars var tilboðum frá bæði Icelandair og Play tekið og þar með komst á bindandi samningur til eins árs með heimild til framlengingar þrisvar sinnum, til eins árs í senn.

Í rammasamningi kemur fram að opinberir starfsmenn þurfi sjálfir að meta hvaða flugferð henti þeirra ferðalagi best á hverjum tíma. Kostnaður við flug opinberra aðila sé aðeins einn hluti af raunverulegum ferðakostnaði fyrir íslenska ríkið og þar með sé lægsta verð flugs ekki alltaf það hagstæðasta fyrir viðkomandi kaupanda. Hver ferð sé einstök og bókuð í samræmi við þarfir hvers einstaklings og vinnuveitanda viðkomandi. Segir eins að keypt ferð skuli endurspegla þarfir þess starfsmanns sem í ferðina fer. Ef tvær ferðir henta báðar skal velja þá ódýrari.

Freistnivandi vildarkjara

Play byggði málatilbúnað sinn á því að Alþingi hafi brotið gegn reglum um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins frá árinu 2020. Segi í reglunum að fríðindi og hvers kyns vildarkjör sem aflað sé við greiðslu á farmiða skuli aðeins koma þeim ríkisaðila sem greiðir farmiðann til góða, og eftir atvikum skuli draga slík vildarkjör frá dagpeningum. Play benti á að þrátt fyrir þessar reglur renni vildarpunktar Icelandair beint til þeirra opinberu starfsmanna sem noti þjónustu frá Icelandair í stað þess að þeir renni til Alþingis sem kaupanda flugferðar. Play sagði reglurnar órjúfanlegan hluta rammasamningsins og væri framkvæmd Alþingis því alvarlegt brot á samningi. Eins séu viðskipti Alþingis við Icelandair margfalt umfangsmeiri en við Play án þess að málefnalegar ástæður liggi fyrir því. Þetta sé ólögmæt háttsemi af hálfu Alþingis.

„Kærandi kveður opinbera umfjöllun síðastliðin ár og mánuði einungis hafa snúist um að þingmenn fá skattfrjálsa vildarpunkta í skiptum fyrir flugferðir með Icelandair sem greiddar séu af ríkinu. Kærandi telur yfirgnæfandi líkur á að starfsmenn annarra opinberra aðila sem séu áskrifendur að samningnum hafi einnig fengið samskonar vildarpunkta í skiptum fyrir flugferðir sem greiddar séu af ríkinu. Að mati kæranda skapi vildarpunktasöfnun mikinn freistnivanda hjá opinberu starfsfólki að kaupa flug hjá Icelandair og þá síður flug með kæranda sem bjóði ekki upp á sömu fríðindi.“

Ekki bara verð

Alþingi vísaði í vörn sinni til þess að verð á flugmiða sé ekki það eina sem ráði ferðinni. Horfa þurfi til þess hvert flugfélögin fljúga, hvenær dags, á hvaða flugvelli og annað slíkt. Út frá slíkum forsendum sé það oftast niðurstaðan að Icelandair henti betur. Það sé dýrt að senda opinbera starfsmenn í vinnuferðir og stundum svari það ekki kostnaði að láta starfsmanna bíða eftir ódýrara flugi þegar á sama tíma þarf að greiða dagpeninga og önnur útgjöld. Vinnuferðir séu flókin í framkvæmd, oft er um flóknar bókanir að ræða þar sem nokkrir þurfi að ferðast saman í gegnum marga flugleggi. Til standi að gera rammasamning um þjónustu ferðaskrifstofa til að taka við flóknari ferðunum.

Icelandair benti á að ekkert í þeirra skilmálum geri farþegum skylt að skrá sig í vildarþjónustu. Enginn sé neyddur til að þiggja vildarpunkta. Kaupendur, hið opinbera í þessu tilviki, geti því auðveldlega sett starfsfólki sínu þær reglur að skrá ekki niður vildarnúmer við gerð bókana, sjái viðkomandi ástæðu til slíks.

Kærunefndin rakti að málatilbúnaður Play byggi á því að þingmenn og starfsmenn Alþingis séu að velja Icelandair frekar en Play út af vildarpunktunum. Þetta sé ekki í samræmi við reglur um greiðslu ferðakostnaðar. Hins vegar komi hvergi fram í rammasamningi að þessar reglur sem ríkisstjórnin hafi sett, teljist hluti af rammasamningi. Þar með sé það ekki á valdsviði kærunefndarinnar að ákvarða um möguleg brot gegn þessum reglum.

Play hafi ekki tekist að sýna fram á að einstök innkaup Alþingis á flugsætum hafi brotið gegn skilmálum rammasamnings og slíkt sé ekki hægt að ráða af framlögðum gögnum. Því var öllum kröfum Play hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Edda minnist Lalla Johns – „Lalli var alltaf blíðan uppmáluð, brosandi gleðigjafi og góður við allt og alla“

Edda minnist Lalla Johns – „Lalli var alltaf blíðan uppmáluð, brosandi gleðigjafi og góður við allt og alla“
Fréttir
Í gær

Uggandi yfir uppsögnum: „Þjóðminjasafn án fornleifafræðinga“

Uggandi yfir uppsögnum: „Þjóðminjasafn án fornleifafræðinga“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kom fyrir myndavélum á klósetti Airbnb íbúðar sinnar – Vildi bera getnaðarlimi gestanna saman við sinn

Kom fyrir myndavélum á klósetti Airbnb íbúðar sinnar – Vildi bera getnaðarlimi gestanna saman við sinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna lætur „megins-straums femínista“ heyra það – Vinsælt áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti

Sólveig Anna lætur „megins-straums femínista“ heyra það – Vinsælt áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti