Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra birti meðfylgjandi myndband af eldgosinu sem hófst á Reykjanesskaga í morgun á Facebook-síðu sinni. Myndbandið var tekið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar núna á sjöunda tímanum og sýnir það vel umfang gossins.
Í tilkynningu sem Veðurstofa Íslands birti um klukkan 7 í morgun kemur fram að út frá fyrstu fréttum úr umræddu eftirlitsflugi er gosið á sömu slóðum og gosið 18. desember. Sprungan er um 3 km löng, liggur frá Sundhnúk í suðri til austurenda Stóra-Skógfells. Hraun rennur mestmegnis til vesturs á þessu stigi. Hraunflæði virðist aðeins minna en í byrjun gossins 18. desember.