Mjög blint hefur verið á höfuðborgarsvæðinu vegna ofankomu og hvassviðris síðasta klukkutímann eða svo og viðbúið að færð muni spillast í einhverjum götum vegna þess.
Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögregla hafi ekki fengið tilkynningar um slys eða óhöpp í tengslum við ofankomuna.
Sjá einnig: Bakki með samfelldri ofankomu stefnir á höfuðborgarsvæðið
Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að ofankoman muni standa stutt yfir. Sagði hann í samtali við DV að veðrið væri til dæmis búið að ganga niður í Hafnarfirði. Úrkomubakkinn mun svo fara norður yfir landið í dag þar sem gera má ráð fyrir samfelldri snjókomu um tíma.
Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því um 10 leytið að Reykjanesbrautinni hefði verið lokað í báðar áttir vegna lélegs skyggnis. Eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát. Lokunin virðist hafa stutt yfir og var brautin opnuð að nýju þegar veður varð skaplegra. Vegagerðin hvetur ökumenn til að fara gætilega.
„Mjög slæmt skyggni er víða, m.a. á Reykjanesbraut, Hellisheiði og í Þrengslum, vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum,“ segir á vef Vegagerðarinnar.