Landsréttur hefur dæmt fyrirtæki til að greiða konu sem sagt var upp störfum rúmlega 3,3 milljónir króna vegna launa í uppsagnarfresti, eina milljón króna í miskabætur og eina milljón í málskostnað. Telur Landsréttur uppsögn konunnar hafa verið ólöglega en fyrirtækið sakaði hana um að hafa brotið trúnaðarskyldu í tengslum við það að barnsfaðir hennar tók að ofsækja starfsmann í fyrirtækinu og senda honum í sífellu óhugnanlegar hótanir.
Landsréttur sneri þarna við dómi Héraðsdóms sem hafði sýknað fyrirtækið af kröfum konunnar og talið uppsögnina lögmæta. Forsagan er sú að konan kvartaði undan kynferðislegri áreitni vinnufélaga síns í starfsmannapartíi. Fyrirtækið fól utanaðkomandi ráðgjöfum að kanna málið. Í kjölfar skoðunar fagfólksins og sáttafundar á milli fólksins var ákveðið að þau myndu gera með sér samskiptasamning sem hefði það að markmiði að samskipti þeirra á vinnustaðnum yrðu eðlileg og hvorki þvinguð né óþægileg. Þau skuldbundu sig jafnframt til að halda trúnað um efni samningsins og tilefni hans.
Fyrir og eftir sáttafundinn sendi barnsfaðir konunnar starfsmanninum, sem sakaður hafði verið um áreitnina, vægast sagt ískyggilegar hótanir, meðal annars þetta:
„Þú varst að fokka svo feitt í barnsmóður minni. Þú veist … ég ætla að gefa þér fokking séns af því að ég er … þú veist … búinn að þekkja þig í svo mörg ár, en … þú veist … þú ert að fara að borga einhverja feita sekt eða ég er að fara að láta … þú veist þú veist … einhvern brjóta öll fokking bein í fokking líkamanum á þér, skilurðu mig? Ég verð í bandi.“
Barnsfaðirinn er dæmdur ofbeldismaður og þekktust hann og starfsmaðurinn sem hafði verið sakaður um áreitnina. Meðal annars hótaði barnsfaðirinn því að nauðga eiginkonu og börnum starfsmannsins. Hótanirnar fólu í sér fjárkúgun en barnsfaðirinn krafðist ítrekað að starfsmaðurinn greiddi sér „sekt“ og tvöfaldaði hann síðan sektina. Starfsmaðurinn fór um tíma í felur vegna þessara hótana og fyrirtækið þurfti að skipta um skrár í hurðum í húsnæðinu.
Í kjölfarið var vinnusamningi við konuna rift fyrirvaralaust á þeim forsendum að hún hefði brotið trúnaðaskylduna sem samskiptasamningurinn fól í sér. Það átti hún að hafa gert með því að hringja í barnsföðurinn og biðja hann um að láta af hótunum. Fyrirtækið taldi mega ráða af efni hótana barnsföðurins að hún hefði upplýst hann um efni trúnaðarsamningsins. Þessu neitaði konan en hótanirnar höfðu hafist nokkuð löngu áður en samskiptasamningurinn var gerður. Hún viðurkenndi að hafa sagt barnsföðurnum frá áreitninni eftir að hún átti sér stað en neitaði því að hafa upplýst hann um efni samskiptasamningsins.
Héraðsdómur féllst á að fyrirtækinu hefði verið heimilt að segja konunni upp vegna trúnaðarbrots en Landsréttur sneri þeim dómi við og taldi með öllu ósannað að konan hefði brotið trúnað þó að hún hefði beðið barnsföður sinn um að láta af hótunum í garð samstarfsmannsins.
Dómana má lesa hér.