fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Sólveig Anna spyr hvort leiðari Morgunblaðsins hafi verið skrifaður undir áhrifum áfengis

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. janúar 2024 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar spyr í færslu á Facebook-síðu sinni hvort leiðari helgarblaðs Morgunblaðsins, þar sem fjallað er um þá breiðfylkingu verkalýðsfélaga sem Efling er hluti af vegna kjarasamningsviðræðna, hafi verið skrifaður undir áhrifum áfengis.

Það sem einkum fær Sólveigu til að spyrja þessarar spurningar er það orðfæri höfundar leiðarans, en leiðarar Morgunblaðsins eru aldrei merktir með nafni, að líkja breiðfylkingunni við rússneska bolsévika:

„Nafngiftin breiðfylking fer því að minna dálítið á það þegar Lenín og hans meðreiðarmenn gáfu sér nafnið Bolsévikar sem þýðir meirihluti, þótt þeir veiru yfirleitt í minnihluta.“

Þess má einnig geta að í dag eru 100 ár liðin frá dauða Vladimir Lenín sem var leiðtogi bolsévika og fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna.

Sólveig Anna gefur ekki mikið fyrir þessa samlíkingu Morgunblaðsins og telur ekki ólíklegt að þarna hafi leiðarahöfundurinn verið búinn að fá sér neðan í því:

„Vangaveltur þær sem í leiðara helgarinnar birtast eru þess eðlis að það er ekki ósennilegt að heilinn sem þær fæddust í hafi verið örlítið öl-vímaður.“

Sólveig Anna, sem er reglulegur lesandi Morgunblaðsins, minnir á að mikið sé skrifað um áfenga drykki á síðum blaðsins og veltir fyrir sér hvort leiðarahöfundurinn hafi ákveðið að taka Winston Churchill, sem drakk alla daga jafnvel þegar hann leiddi Bretland í gegnum síðari heimsstyrjöldina, sér til fyrirmyndar.

Reyndist sannspá

Sólveig segist hafa átt von á því að Morgunblaðið myndi reyna að varpa fram slíkum efasemdum um að Breiðfylkingin væri fulltrúi meirihluta vinnandi fólks á hinum almenna vinnumarkaði:

„Í gær sagði ég við samstarfsfélaga mína að innan skamms myndi Mogginn slá því upp að breiðfylking sú sem leiðir nú kjarasamningsviðræður fyrir 93% aðildarfélaga Alþýðusambandsins, eða u.þ.b. 115.000 manneskjur á íslenskum vinnumarkaði sem er u.þ.b. 73% alls vinnandi fólks á landinu, væri í raun alls ekkert breið og ætti að skammast sín og hlusta sem fyrst á þá sem hefðu allt aðrar skoðanir á markmiðum þeim sem stefna skal að í viðræðunum. Það væri hið eina rétta og lýðræðislega í stöðunni.“

Sólveig veltir síðan að lokum fyrir sér, að því er virðist af þó nokkurri kaldhæðni, hvort að leiðarahöfundur Morgunblaðsins hafi leitað í flöskuna til að sefa sorg sína yfir því sem viðkomandi vilji meina að sé ógnarástand í íslenskri verkalýðshreyfingu:

„Viljið þið vita hvað gerist ef ekki er fetuð sú skynsama og mannkynssögulega margreynda leið sem að rakin er hér að ofan og þeir víðlesnu og lífsreyndu manna sem taka náðarsamlegast að sér að nota heilana sína í að útbúa fyrir okkar leiðara Morgunblaðsins vita að er sú eina rétta? Það er ekki flókið: Þú ferð þá samstundis að minna á Lenín og bolsévikana!“

„Ástandið er vægast sagt dapurlegt. Best að bæta aðeins í glasið og losa um smá dópamín til að sefa hinar melankólísku tilfinningar.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt