Þingkonan ræddi þetta í Bítinu í morgun og rifjaði upp atvik á flugvellinum í Stokkhólmi sumarið 2022 og fleiri nýleg dæmi sem komið hafa upp að undanförnu.
„Mig vantaði evrur og fer í litla lúgu þar sem hægt var að skipta peningum. Þetta voru 200 evrur,“ sagði Hanna sem svaraði spurningum á flugvellinum samviskusamlega, meðal annars við hvað hún starfar.
„Þegar ég segist vera stjórnmálamaður þá sé ég viðvörunarljósin fara í gang í augunum á konunni sem var að afgreiða mig. Hún stekkur til hliðar og fer að ráðfæra sig við eldri mann sem ég geri ráð fyrir að hafi verið yfirmaður þarna og þau tala saman lengi. Ég átta mig ekki á hvað er í gangi fyrr en þau koma bæði fram og halda áfram að tala saman. Ég heyri hann segja við hana að upphæðin sé undir mörkum þannig að hún afgreiðir þetta,“ sagði Hanna og bætti við að maðurinn hafi sagt við konuna að þetta færi inn í kerfið. Ef hún tæki peninga út annars staðar yrði það stoppað. Fór það svo að Hönnu var afhentur peningurinn.
Hanna segist hafa skoðað málið þegar hún kom heim og benti hún á að Ísland hafi reynt að uppfylla ákveðin skilyrði til að koma okkur af svokölluðum gráum lista hjá alþjóðlegum hópi ríkja sem eru með aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Hanna segir að eitt af þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla er að stjórnmálamenn séu ekki að sýsla mikið með peninga á milli landa. Það sé gott og blessað en verra sé þegar aðrir fái að finna fyrir aðgerðunum – jafnvel fólk sem hefur afar takmarkaða tengingu við hana.
„Þegar ég kem heim þá kemur í ljós að baðar dætur mínar sem eru bara fullorðnir námsmenn höfðu lent í vandræðum með bankann sinn hérna heima. Hann var að kalla eftir upplýsingum og skattaskýrslum aftur í tímann svo það yrði ekki lokað á reikninginn,“ segir Hanna og bætir við að þær hafi meira að segja átt í vandræðum með að millifæra tekjur fyrir sumarvinnu hér á landi á reikninga erlendis. „Af því að þær eru með þessi stjórnmálalegu tengsl.“
Hanna segir að stjórnmálamenn þurfi réttilega að ganga undir þessi skilyrði. „Við höfum í ákveðnum tilfellum færi á að haga okkur illa, ef svo má segja – ráðandi fólk gerir það,“ sagði hún og nefndi annað dæmi af konunni sinni, Ragnhildi Sverrisdóttur, sem er í lítilli hljómsveit og situr í stjórn hennar.
Sagði hún að hljómsveitin, Úkúlellurnar, hefðu haldið nokkra tónleika og langað að fá sér posa.
„Hún er kona með stjórnmálaleg tengsl og það kemur í ljós að hinar konurnar sem sitja með henni í stjórninni eru útsettar fyrir þessu. Til að gera langa sögu stutta þá gáfust þær upp að fá posa og lausnin er sú að á næsta aðalfundi mun Ragnhildur hverfa úr stjórn og þá hverfa þessi stjórnmálalegu tengsl.“
Hanna nefndi enn annað dæmi en hún hefur undanfarin ár setið í stjórn sjálfseignarfélagsins Hlíðarendi sem tengist íþróttafélaginu Val. Stjórnarmeðlimir þar sinna stjórnarsetu í sjálfboðastarfi og þegar fyrirtæki hér heima, Creditinfo þar á meðal, fór að safna upplýsingum um fólk með stjórnmálaleg tengsl þá fengu félagar hennar í stjórninni skilaboð þess efnis að þeir teldust vera einstaklingar með stjórnmálaleg tengsl. „Í þessu sjálfboðafélagi eins og mörgum öðrum er fólk sem stundar vinnu á öðrum sviðum og það getur verið mjög hamlandi að vera á svona lista.“
Hanna segist hafa brugðist við með því að segja sig úr stjórn Hlíðarenda.
Hanna segir ekkert óeðlilegt að fólk í stjórnmálum gangist undir stífari skoðun en aðrir og það sé jafnvel líka réttlætanlegt að það kvíslist út í fjölskyldu viðkomandi. „En að fólk sem situr í stjórnum allskonar félaga út og suður sem er ekki endilega að sýsla með peninga, er í sjálfboðavinnu, það er of langt gengið,“ sagði Hanna Katrín í viðtalinu og veltir fyrir sér hvort við séum að ganga of langt.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Hönnu Katrínu hér.