Leikurinn byrjaði rólega og voru markmenn liðanna í miklu stuði. Viktor Gísli Hallgrímsson varði hvert skotið á fætur öðru og má íslenska liðið þakka honum fyrir að hafa ekki lent nokkrum mörkum undir í byrjun leiks.
Að sama skapi var Dejan Milosavjlec í marki Serba frábær og var með nærri 50% markvörslu í fyrri hálfleik. Spennustigið var augljóslega hátt og var lítið skorað framan af.
Íslenska liðið varð fyrir áfalli eftir rúmlega 10 mínútna leik þegar Elliði Snær Viðarsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir olnbogaskot í andlit leikmanns Serba. Dómararnir fóru í skjáinn og skoðuðu brotið á myndbandsupptöku og voru vissir í sinni sök.
Íslenska liðið náði svo frábærum kafla með þremur mörkum í röð og skoraði Sigvaldi Björn Guðjónsson tvö þeirra og kom Íslandi í 7-4 þegar 19 mínútur voru liðnar. Serbarnir svöruðu svo sjálfir með þremur mörkum og jöfnuðu í 7-7. Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var staðan 11:10 fyrir Ísland í hálfleik.
Serbarnir skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og var sóknarleikur íslenska liðsins áfram stirður. Janus Daði Smárason skoraði fyrsta mark Íslands í seinni hálfleik og jafnaði leikinn í 12:12.
Serbarnir voru gríðarlega ágengir og gekk íslenska liðinu bölvanlega að brjóta öfluga vörn þeirra á bak aftur. Á sama tíma hrundi markvarslan og Serbar gengu á lagið.
Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik var íslenska liðið aðeins búið að skora tvö mörk og brekkan að verða brött. Bjarki Már Elísson skoraði þó þriðja mark Íslands og minnkaði muninn í 15-14. Svona gekk þetta fram og til baka og minnkaði Bjarki muninn í 16-17 með góðu marki úr horninu. Viktor Gísli varði svo sitt fyrsta skot í seinni hálfleik en í kjölfarið fór þriðja vítakast Íslands forgörðum þegar Ómar Ingi Magnússon skaut í slá.
Bjarki Már Elísson dró vagninn sóknarlega fyrir Ísland í seinni hálfleik og hann minnkaði muninn í 18-19 þegar um 13 mínútur voru til leiksloka. Viggó Kristjánsson átti líka frábæra innkomu og var gríðarlega mikilvægur fyrir íslenska liðið undir lok leiks.
Varnarleikurinn var hins vegar ekki nógu góður og markvarslan ekki heldur. Serbarnir voru þó aldrei langt undan og minnkaði Sigvaldi Björn muninn í 25-24 þegar fimm mínútur voru eftir.
Íslenska liðið er þekkt fyrir flest annað en að gefast upp og tókst okkur að jafna metin með ótrúlegum lokakafla þar sem Sigvaldi Björn skoraði jöfnunarmarkið, 27-27, þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks. Serbarnir voru með sigurinn í höndunum en fóru illa að ráði sínu og misstu boltann. Mark Sigvalda gæti reynst dýrmætt þegar upp verður staðið en næsti leikur Íslands er gegn Svartfjallalandi á sunnudag.