Nú telja sérfræðingar sig hafa leyst þessa ráðgátu varðandi hið ofurhljóðfráa Kinzhal-flugskeyti. Valery Gerasimov, æðsti herforingi rússneska hersins, hefur sagt þetta flugskeyti vera „ósæranlegt“. Fljótlega eftir að tilkynnt var um tilvist þessa rándýra flugskeytis fékk það viðurnefnið „ofurvopn Pútíns“.
En þrátt fyrir að það sé ofurhljóðfrátt og eigi að vera „ósæranlegt“ hefur Úkraínumönnum tekist að skjóta mörg þeirra niður. Segjast þeir hafa skotið 25 slík flugskeyti niður af þeim 67 sem Rússar hafa skotið á Úkraínu.
Óháðir aðilar hafa ekki getað staðfest þessa tölu en bandarískir heimildarmenn innan stjórnkerfisins hafa staðfest að tvö af þessum flugskeytum, hið minnsta, hafi verið skotin niður. Einnig hafa myndbönd birst á samfélagsmiðlum af slíkum flugskeytum sem höfðu verið skotin niður. Berlingske skýrir frá þessu.
Þessi flugskeyti eru átta metra löng og geta náð 12.000 km/klst. Þau geta borið kjarnaodda og geta breytt stefnu sinni á leið sinni að skotmarkinu. Af þessum sökum var það svolítið ráðgáta hvernig Úkraínumönnum hefur tekist að skjóta þessi flugskeyti niður.
En nú telja sérfræðingar sig hafa fundið þrjár ástæður fyrir góðu gengi Úkraínumanna við að skjóta þessi flugskeyti niður.
Það fyrsta og mikilvægasta er hið fullkomna bandaríska Patriot-loftvarnarkerfi sem Úkraínumenn hafa fengið frá Bandaríkjunum og öðrum vestrænum bandamönnum sínum. Það er aðeins með Patriot-kerfum sem Úkraínumenn geta skotið flugskeytin niður.
Hinar tvær ástæðurnar eru ákveðin vandamál varðandi „ofurvopnið“ en þau veita Úkraínumönnum ákveðinn ávinning. Þetta sagði Roman Svitan, hernaðarsérfræðingur, í samtali við Novaja Gazeta Europa.
Annað er að Kinzhal-flugskeytin hægja mjög mikið á sér þegar þau steypa sér niður í átt að skotmarki sínu og þá geta Patriot-loftvarnarkerfin hæft þau.
Hitt er að það er aðeins hægt að skjóta flugskeytunum frá MiG-31 orustuþotum. Þetta gerir að verkum að Úkraínumenn vita vel að þeir þurfa að vera á tánum í hvert sinn sem slíkar orustuþotur taka á loft.
Talið er að hvert og eitt Kinzhal-flugskeyti kosti 10 milljónir dollara en svo virðist sem þessi flugskeyti séu ekki hið mikla ofurvopn sem Pútín taldi.