Karlmaður leitaði til Umboðsmanns Alþingis eftir að honum var meinað að hefja starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Hafði honum verið synjað um vistina sökum hátternis sem hann viðhafði á barnsaldri. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns.
Lögregla hóf bakgrunnsskoðun á manninum í tilefni af umsókn hans. Þá kom í ljós að í málaskrá var greint frá afskiptum sem lögregla hafði að manninum eftir tilkynningu frá starfsfólki ónefnda skóla, sem sögðu hann hafa mætt með hníf í skólann. Greindi skólastjóri frá því að starfsmenn hafi lýst áhyggjum af andfélagslegri hegðun mannsins, en hann hafi viðhaft neikvæð ummæli um múslima sem og látið frá sér orð sem starfsfólk taldi sig ekki mega túlka með öðrum hætti en að hann væri hliðhollur nasisma.
Eins bárust upplýsingar frá lögregluyfirvöldum í erlendu ríki, þar sem maðurinn hafði verið við nám sem unglingur, þar sem sagði að honum hafi verið vísað úr skóla sökum svipaðra atriða. Hafði lögregla leitað frekari svara frá erlendum kollegum sínum, þar sem hún sagðist vera að skoða mál umsækjanda sem grunur léki á að væri með róttækar skoðanir og því þyrfti að afla upplýsinga um mögulegan sakarferil, upplýsingar um róttækar skoðanir eða möguleika af ofbeldi af hans hálfu.
Erlenda lögreglan greindi frá því að maðurinn hafi ekki verið dæmdur fyrir nokkuð og lögregla hafi ekki verið í sambandi við hann. Hann hafi verið rekinn úr skóla og í kjölfarið hafi starfsmaður þaðan ekið honum upp á flugvöll. Brottreksturinn mátti rekja til þess að ítrekað hafi komið upp undarlegar aðstæður sem tengdust manninum.
Taldi lögregla að þar með væri ljóst að maðurinn hafi sem unglingur sýnt af sér háttsemi sem væri til þess fallin að rýra traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta.
Maðurinn sætti sig ekki við þessa niðurstöðu. Hvað tilvikið í málaskrá varði þá var hann 16 ára þegar það átti sér stað. Lögregla hafi ekki rannsakað meint ummæli starfsmanna skólans betur heldur slegið þeim fram sem sannleika nú í tilefni umsóknar hans. Hvað seinna tilvikið varðaði vildi maðurinn meina að tilvikið væri sett fram með villandi hætti. Í raun hafi mátt rekja málið til tungumálaörðugleika. Ljóst sé að ákvörðun um að neita honum um starfsnám sé efnislega röng enda byggi ákvörðun á sögusögnum frá ónefndum aðilum, málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti og manninum ekki gefinn kostur að segja sína hlið.
Ríkislögreglustjóri benti á móti á að seinna tilvikið sem um ræddi hafi átt sér stað innan við ári áður en maðurinn sótti um starfsnámið, því sé haldlaust að vísa til ungs aldurs. Þegar fólk er tekið inn í starfsnám þarf að leggja heildstætt mat á getu þeirra til að sinna starfinu og hefur lögregla þar svigrúm til mats. Það þurfi að vera hafið yfir vafa að viðkomandi geti sinnt starfi sínu svo vel séð og undir það falli að veita öllum samfélagshópum sömu þjónustu og að yfir allan vafa sé hafið að skoðanir lögregluþjóns mótist ekki af andfélagslegri hegðun. Umrædd tilvik séu til þess fallin að rýra traust til lögreglu.
Ríkislögreglustjóri rakti að það hafi mátt koma skýrar fram í synjunarbréfi að seinna tilvikið vóg þyngra við matið. Ríkislögreglustjóri hefði ekki átt að vísa sérstaklega til þess í synjunarbréfi að maðurinn hafi verið sakaður um andfélagslega hegðun, enda sögðu starfsmenn skólans það ekki berum orðum og slík fullyrðing ekki borinn undir þau til staðfestingar. Þó sé óumdeilt að fagfólk innan tveggja menntastofnana í tveimur mismunandi löndum hafi lýst yfir áhyggjum af meintri andfélagslegri hegðun mannsins og voru fyrirliggjandi upplýsingar frá tveimur óskyldum aðilum sem bentu í sömu átt. Það sé eðlilegt að ríkislögreglustjóri líti þetta alvarlegum augum. Hér hafi ótengdir aðilar lýst manninum með áþekkum hætti og líklegt að upplýsingarnar eigi við rök að styðjast.
Það segi í siðareglum lögreglu að starfsmenn þurfi ávallt að virða að allir eru jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, efnahags, ætternis eða að öðru leyti. Þegar seinna tilvikið átti sér stað var maðurinn orðinn lögráða og taldist fullorðinn. Lögreglumenn þurfi eins að búa yfir nærgætni, trúmennsku, þagmælsku og þekkingu.
Vissulega hefði mátt taka fram með afgerandi hætti að það var seinna tilvikið, sem átti sér stað innan við ári fyrir umsókn, sem vóg þyngst í málinu. Baðst ríkislögreglustjóri velvirðingar á þeim mistökum.
Umboðsmaður rakti að tilgreind háttsemi mannsins væri til þess fallin að geta rýrt traust til lögregluþjóna. Fyrra tilvikið átti sér þó stað þegar hann var barn að aldri. Eitt og sér hafi það ekki geta orðið grundvöllur synjunar, en aðstæður séu ekki svo heldur hafi átt sér önnur uppákoma skömmu fyrir umsókn. Umboðsmaður sagðist ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat ríkislögreglustjóra hafi verið ómálefnalegt eða bersýnilega ófarsvaranlegt. Það sé einkum hlutverk lögreglu að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu. Eins sé þeim heimilt að hlutast í líf annarra og beita valdi. Þessari ábyrgð þarf að vera hægt að trúa þeim fyrir. Að öllu virtu hafi ríkislögreglustjóri ekki farið gegn lögum. Rökstuðningur embættisind til mannsins hafi ekki verið í samræmi við kröfur stjórnsýsulaga, og til þess fallinn að valda misskilningi, en þetta leiddi þó ekki til þess að umboðsmaður setti sig á móti ákvörðun embættisins.