Þýskur maður, 55 ára að aldri, er grunaður um að hafa haldið eiginkonu sinni, 53 ára, fanginni í íbúð í bænum Forbach í Frakklandi, í 12 ár. Sumir franskir fjölmiðlar hafa greint frá því að maðurinn hafi beitt konuna pyntingum og pyntingabekkur hafi verið á heimilinu. Bild Zeitung í Þýskalandi segir saksóknara í málinu ekki hafa staðfest þessar upplýsingar.
Frönsku miðlarnir hafa jafnframt nefnt til sögunnar minnisbók þar sem maðurinn hafi skrifað niður pyntingaaðferðir og næringu fyrir konuna. Saksóknari segir að þetta sé ekki staðfest.
Konan hringdi í neyðarlínu er hún komst með einhverjum hætti yfir síma sinn. Þá fór boltinn að rúlla, sjúkralið sótti konuna og maðurinn var handtekinn í dag. Konan er sögð hafa verið vannærð og með áverka.
Er konan kom í sjúkrahús greindi hún læknum og hjúkrunarliði frá því að hún hefði verið lokuð inni í húsinu í 12 ár. Rimlar eru sagðir vera fyrir öllum gluggum í íbúð hjónanna.
Bild ræddi við nágranna hjónanna sem segja að maðurinn hafi verið kurteis og vingjarnlegur. Þeir segjast hins vegar aldrei hafa séð konuna. Einstaka sinnum heyrðist hún öskra. Maðurinn gaf þær skýringar að hún væri með krabbamein og væri kvalin vegna verkja.