Pólverjar hafa ekki legið á liði sínu við að hjálpa nágrönnum sínum í Úkraínu síðan Rússar réðust á þá. En nú hafa Pólverjar dregið strik í sandinn og sagt hingað og ekki lengra.
Pawel Jablonski, utanríkisráðherra, sagði í samtali við útvarpsstöðina RMF FM að samband landanna sé ekki upp á hið besta þessa dagana eftir nokkur slæm ummæli.
„Við sýnum þeim skilning því landið er í stríði en það á heldur ekki að koma fram við bandamenn sína á þennan hátt,“ sagði hann og lagði áherslu á að það séu mörg mál sem löndin hafa ekki náð saman um. „Við styðjum Úkraínu eins mikið og það þjónar pólskum hagsmunum. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera,“ sagði hann einnig.
Rót deilnanna er aðallega vegna banns Pólverja við innflutningi á úkraínsku korni. Ódýrt úkraínskt korn hefur yfirfyllt evrópska markaði eftir að Rússar framlengdu ekki samning um útflutning á úkraínsku korni. Af þeim sökum hafa Pólverjar sett á tímabundið innflutningsbann.