Svona hefst grein eftir eftir Sean Bell, hernaðarsérfræðing, á vef Sky News, þar sem segir að Vesturlönd eigi á hættu að snúa gangi stríðsins Rússum í vil.
Hann segir að þrátt fyrir að Úkraínumenn séu að berjast fyrir tilvist landsins sem sjálfstæðs ríkis og að Rússar geti gert harðar árásir á úkraínskt landsvæði, þá vilji Vesturlönd ekki leyfa Úkraínumönnum að nota vestræn vopn til árása á rússneskt landsvæði af ótta við að það muni leiða til stigmögnunar átakanna.
„En hindrar þessi takmörkun Úkraínu í að veita Rússum afgerandi högg og er þannig í raun að hjálpa Rússum?“ spyr hann síðan.
Hann bendir á að í upphafi stríðsins hafi Vesturlönd haft áhyggjur af að láta Úkraínu „sóknarvopn“ í té vegna hræðslu við venjulega orðræðu Pútíns um stigmögnun átakanna. Samt sem áður hafi rússneska hernum ekki tekist að ná yfirburðum yfir úkraínska hernum og eigi nú í vök að verjast.
„Það síðasta sem Kremlin þarf á að halda er að átökin stigmagnist því þá munu veikleikar rússneska hersins koma í ljós sem aldrei áður,“ segir hann.
Hann bendir síðan á að á síðustu 16 mánuðum hafi sjálfstraust Vesturlanda aukist og það hafi gert Úkraínumönnum kleift að reka rússneska innrásarliðið aftur á bak. Meðal þess sem Vesturlönd hafi sent Úkraínumönnum séu nútíma skriðdrekar, loftvarnarkerfi og langdrægar eldflaugar.
Hann segir að þrátt fyrir að Rússland sé kjarnorkuveldi og hafi hótað að beita kjarnorkuvopnum, þá sé ákaflega ólíklegt að Rússar beiti kjarnorkuvopnum nema Rússlandi sjálfu sé ógnað. Með því að Vesturlönd takmarki möguleika Úkraínumanna á beita vestrænum vopnum, séu þau óbeint að takmarka sóknarmöguleika Úkraínumanna á krítísku stigi í sókn þeirra.
„Með því að takmarka möguleika Úkraínumanna á að færa stríðið til Rússland, eiga Vesturlönd á hættu að styrkja Pútín og breyta gangi stríðsins Pútín í vil,“ segir hann að lokum.