Í síðustu viku fór Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, í opinbera heimsókn til Norður-Kóreu og var honum vel tekið enda ekki oft sem erlendir ráðamenn heimsækja einræðisstjórnina.
Shoigu ræddi auðvitað við Kim Jong-un og hann var einnig viðstaddur stóra hersýningu þar sem Norður-Kóreumenn sýndu honum meðal annars langdrægar flaugar sem geta borið kjarnorkuvopn. Þessar flaugar geta náð alla leið til Bandaríkjanna að sögn Norður-Kóreumanna.
Ástæðan fyrir heimsókninni var að nú eru 70 ár liðin síðan samið var um vopnahlé í stríði Kóreuríkjanna. Shoigu hafði meðferðis myndbandsupptöku með ávarpi frá Vladímír Pútín. Í því þakkaði hann Norður-Kóreu fyrir stuðninginn við innrás Rússa í Úkraínu og lofsamaði sterk tengsl ríkjanna tveggja.
Hann fór ekki út í smáatriðum hvaða stuðning Norður-Kóreu hefur veitt Rússlandi en Bandaríkin hafa sakað Norður-Kóreu um að senda Rússum fallbyssuskot og flugskeyti í staðinn fyrir olíu og matvæli. Rússar hafa vísað þessu á bug.
Shoigu skoðaði flugskeytaskotpalla og vopnaverksmiðjur og sýndu Norður-Kóreumenn honum fullkomnustu vopn sín.
Igor Korotjenko, sem gefur út rússneskt hernaðarrit, sagði að í augum Kremlverja sé Norður-Kórea eðlilegt bandalagsríki í dag. Heimsókn Shoigu sé til vitnis um að hernaðarsamvinna ríkjanna hafi náð nýjum hæðum.
Aleksei Chepa, sem er þekktur rússneskur stjórnmálamaður, sagði að Shoigu hafi í heimsókninni rætt möguleikann á að Norður-Kórea sendi her „sjálfboðaliða“ til Úkraínu til að berjast með Rússum. Chepa er varaformaður utanríkismálanefndar rússneska þingsins.
The Times segir að samkvæmt því sem rússneskur hernaðarsérfræðingur segi þá sé raunhæft að Norður-Kórea geti sent 100.000 hermenn til Úkraínu.