Sprenging, sem átti sér stað laugardagsmorgun einn í október, breytti gangi stríðsins í Úkraínu. Á örskotsstund skemmdust lestarteinar og akbrautin á Krímbrúnni, sem er táknmynd fyrir innlimun Krímskaga í Rússland, mikið í sprengingu.
Þetta var þungt högg fyrir stolt Pútíns og um leið kom árásin í veg fyrir það mánuðum saman að Rússar gætu flutt hersveitir og búnað til Krím beint frá meginlandi Rússlands.
Í fyrstu neituðu Úkraínumenn að hafa haft nokkuð með sprenginguna að gera en fljótlega var ljóst að umfang hennar og nákvæmni árásarinnar var þannig að ekki gat verið um tilviljun að ræða.
Ein fyrsta vísbendingin um hverjir gætu hafa staðið á bak við árásina kom í lok október þegar Budanov skýrði frá skoðun sinni á framtíð brúarinnar. „Krímbrúin er tákn sem verður eyðilagt. Þegar við endurheimtum Krím mun brúin heyra sögunni til,“ sagði hann í samtali við Ukrainska Pravda.
Árásir að baki víglínunni eru nokkurskonar einkennismerki Budanov. Í kjölfar árásar Rússa á Úkraínu vorið 2014 lék hann lykilhlutverk í að skipuleggja andspyrnuna gegn hernámsliðinu.
Samkvæmt því sem úkraínskir fjölmiðlar segja þá tók Budanov beinan þátt í ýmsum leynilegum aðgerðum frá 2018 til 2020. Í ágúst 2020 var hann gerður að yfirmanni leyniþjónustu hersins.
Jótlandspósturinn segir að Rússar hafi fljótlega áttað sig á að þeir stóðu gegnt alvöru andstæðingi. Að minnsta kosti var bíll Budanov sprengdur í loft upp 2019. Talið er að Rússar hafi verið að verki. Eftir þetta hafa Rússar reynt að ráða hann af dögum um 10 sinnum að sögn Novaja Vremja.
Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu á síðasta ári hefur afrekaskrá Budanov lengst mikið.
Leyniþjónustan vinnur á mörgum sviðum, allt frá upplýsingaöflun til drápa á hermönnum á herteknu svæðunum.
Úkraínumenn nota mikið sömu aðferð og Rússar hafa notað í aðgerðum sínum og áreitni gagnvart nágrannaríkjunum og Vesturlöndum: Að gera lítið úr og neita aðild að árásum og aðgerðum og skiptir þá engu að böndin beinist að þeim. Þetta er ein af ástæðunum að erfitt er að segja til með fullri vissu hvort Bodanov hafi komið að ákveðnum aðgerðum í stríðinu.
Það er erfitt að ímynda sér að þær árásir sem rússneskir hópar, sem styðja Úkraínumenn, hafa gert í rússneskum héruðum hafi átt sér stað án þess að Bodanov og leyniþjónustan hafi samþykkt þær eða að minnsta kosti látið þær óátaldar.
Leyniþjónustan hefur einnig verið orðuð við launmorð í Rússlandi. Margir þekktir talsmenn stríðsreksturs Rússa hafa verið ráðnir af dögum og nýlega var fyrrum kafbátsforingi skotinn til bana í Rússlandi þegar hann var úti að hlaupa.