Þetta kemur fram í grein sem Sean Bell, hernaðarsérfræðingur, ritaði nýlega á vef Sky News.
Þar segir hann að gagnsókn Úkraínumanna hafi ekki gengið eins vel og vænst var og hafi þeim ekki enn tekist að brjótast í gegnum varnarlínur Rússa. En Rússar standa einnig frammi fyrir miklum vandræðum að hans mati.
Hann segir að Pútín eigi í vanda með að ná aftur tökum á stjórn rússneska hersins í kjölfar skammvinnrar uppreisnar Yevgeny Prigozhin.
Hann spyr síðan hvort yfirstandandi ólga meðal æðstu stjórnenda rússneska hersins sé hliðarbarátt við hlið grimmdarlegra bardaga á vígvellinum eða hvort spilaborg Pútíns sé að hrynja?
Hann segir að sannfærandi bardagageta sé blanda af búnaði og þjálfun en það sem sé talið mikilvægast sé getan til að „geta fengið fólk til að berjast“.
Þetta snúist um móral, gildi, heilindi og lögmæti til að tryggja að hermenn sýni af sér andlegt og móralskt hugrekki þegar þeir standa frammi fyrir lífshættu.
„Traust og sjálfstraust herforingja, hvort sem er á lægri stigum eða hjá þeim hæst settu, gerir yfirmönnum kleift að koma markmiðum sínum á framfæri, og hvetja undirmenn sína til að sýna frumkvæði, hugrekki og jafnvel fórna lífi sínu til að ná þessum markmiðum,“ segir hann og bætir síðan við að þetta sé ekki aðferð Rússa.
„Í rússneska hernum er engin valdefling, æðstu yfirmenn stjórna og hermenn gera það sem þeim er sagt,“ segir hann.
Hann segir að landgönguliðar séu álitnir mega missa sig, séu peð í hörðum bardaga, og ekkert svigrúm sé til að „túlka“ fyrirmæli því það gæti falið í sér hugsanlega réttlætingu á stjórnleysi sem er eitthvað sem yfirstjórn rússneska hersins óttist sífellt. „Þetta skapar óvild og fyrirlitningu á stjórnendum,“ segir hann.
Hann segir að í kjölfar skammvinnrar uppreisnar Prigozhin geti Pútín ekki vitað hvaða hershöfðingjum hann geti treyst og hverja hann eigi að óttast.
„Það mætti hafa reiknað með að Pútín myndi hreinsa til meðal æðstu herforingja sinna til að gera út af við alla ógn og sem skýr skilaboð til þeirra sem taka við af þeim. En hins vegar er aðalmarkmið hans að halda völdum og hann metur tryggð meira en hæfileika,“ skrifar hann.
Hann segir að það gæti bætt árangur rússneska hersins ef Pútín losar sig við Valery Gerasimov, æðsta hershöfðingja landsins, og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, en það gæti falið í sér hættu á að óvinir komist nær Pútín.
„Sterkrar og áveiðinnar forystu er þörf ef Rússar ætla að ná árangri í Úkraínu. En þess í stað eru öll lög rússneska hersins sýkt af menningu sem byggist upp á grunsemdum og ótta, þetta nær jafnvel alla leið til Kremlar,“ segir hann einnig.