fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Rafmagnað andrúmsloft í héraðsdómi – Björn Steinbekk í hörðum nágrannaerjum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 2. febrúar 2023 15:00

Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð var í morgun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Ernu Bjarkar Häsler gegn nágranna sínum, Ágúst Ómari Berg. Sá síðarnefndi er krafinn um að rífa sólpall í garði sem telst til sameignar fólksins, en um er að ræða tvíbýlishús í Reykjavík.

Fram kom í vitnaleiðslum í málinu í morgun að Erna og eiginmaður hennar, athafnamaðurinn Björn Steinbekk, eignuðust íbúðina árið 2004. Í dag er Erna skráður eigandi íbúðarinnar, en Björn bar vitni í málinu ásamt Ernu og nágrannanum.

Fram kom í vitnisburði beggja hjónanna að þau höfðu leigt íbúðina frá sér á árunum 2008 til 2011 er þau voru við nám erlendis en er þau komu til landsins aftur og fluttu inn í íbúðina á ný uppgötvuðu þau að búið var að leggja sólpall fyrir framan íbúð nágrannans á neðri hæðinni. Segjast þau ekki hafa haft hugmynd um þessa framkvæmd fyrr en pallurinn blasti við þeim og leigjandi þeirra hefði engar upplýsingar veitt þeim um hann.

Í eignaskiptayfirlýsingu viðkomandi fasteignar er skýrt kveðið á um að garðurinn sem fylgir húsinu sé í óskiptri en hlutfallslegri sameign beggja séreigna á lóðinni. Benda hjónin á að án samþykkis þeirra hafi verið byggður sólpallur á þessari sameign sem nágranninn nýti einn og út af fyrir sig eins og um séreign sé að ræða. Hafi þau farið fram á að hann léti fjarlægja pallinn. Benda þau á að með pallinum sé séreign þeirra rýrð.

Erna bar fyrir dómi að þau hefðu fengið það álit fasteignasala að pallurinn rýrði verðmæti fasteignar þeirra og þegar íbúðin var auglýst til sölu árið 2020 hefði þetta verið það fyrsta sem skoðendur spurðu út í, þ.e. pallurinn.

Er Ágúst bar vitni kom fram að pallurinn hefði þegar verið lagður er hann keypti íbúðina árið 2011. Hefði hann í fyrstu talið að pallurinn tilheyrði íbúðinni þó að síðar hefði annað komið á daginn. Krefst hann sýknu meðal annars á grundvelli tómlætis því engar formlegar kröfur um fjarlægingu pallsins hefðu komið fram fyrr en árið 2022 er hann hafði búið í húsinu í yfir áratug.

Þó er það svo að Erna og Björn leituðu álits byggingarfulltrúa um framkvæmdina árið 2012 og var það niðurstaða hans að hún væri ekki leyfisskyld né krefðist grenndarkynningar. Lýsti Ágúst því að hann hefði átt samtal við starfsmann byggingarfulltrúa sem kom að húsinu og var að taka út pallinn, sem staðfesti þetta og réði þar úrslitum að pallurinn nær ekki 0,3 m hæð sem er viðmið í viðkomandi reglugerðum um framkvæmd af þessu tagi sem krefst byggingarleyfis.

Pallur, verönd eða „jarðlagt viðargólf“

Nokkuð var tekist á um hvort kalla ætti umræddan sólpall því nafni eða hvort um væri að ræða verönd eða það sem lögmaður Ágústs, Gísli Tryggvason, lagði áherslu á í sínum málflutningi, „jarðlagt viðargólf“. Enginn skjólveggur fylgir pallinum eða veröndinni, en hann liggur að steinvegg sem Björn Steinbekk og fyrrverandi eigandi létu gera í samráði á sínum tíma. Sagði Gísli að veröndin samsvaraði í raun hellulögn eða jafnvel grasi enda væri hún í flútti við grasflötinn og vel innan við 30 cm yfir yfirborði hans.

Gísli bendir einnig á að fjarlæging verandarinnar myndi valda umbjóðanda hans töluverðu fjárhagstjóni, væri eyðilegging á verðmætum og myndi rýra verðgildi eignar hans. Segir hann að þjóðfélagsleg rök mæli gegn því að dæmt sé að verðmæti á borð við þessa verönd séu fjarlægð, í því felist mikið verðmætatap.

Gísli bendir einnig á að staðfest sé að þessi framkvæmd sé hvorki háð byggingarleyfi né byggingarheimild og hún sé ekki tilkynningaskyld. Því síður krefjist slík framkvæmd grenndarkynningar. Var síðan töluvert vikið að því hvort veröndin væri í raun til einkaafnota hjá íbúum neðri hæðarinnar eða væri öðrum íbúum aðgengileg.

Lögmaður Ernu, Ragnar Björgvinsson, lagði fram í dómnum myndir af pallinum margnefnda og spurði Ágúst út í muni sem þar væri að sjá, t.d. garðhúsgögn. Leiddi hann fram að allt var þar í hans eigu auk þess sem aðgengi sé úr íbúð hans á veröndina.

Mikill fjandskapur á milli nágrannanna

Það mátti skilja á framburði allra þriggja fyrir dómi í morgun að mikill fjandskapur er á milli nágrannanna og andrúmsloftið í dómsal var þrungið spennu. „Hættu að horfa á mig. Dómari, hann er að áreita mig,“ sagði Erna er hún bar vitni og var augljóslega í uppnámi. Dómari hirti ekki um þessar kvartanir, sagði að nágranni hennar hefði rétt á að horfa á hana á meðan hún gæfi vitni og hún ætti að horfa á hann, dómarann, en ekki á nágrannann.

„Við höfum ekki verið velkomin í okkar eigin garð,“ sagði Björn er hann gaf vitni og var spurður út í möguleg afnot þeirra af veröndinni. Nefndi hann fjandsamlegt viðmót nágrannanna er börn hans og Ernu hefðu misst bolta inn á veröndina og væri það til marks um að nágrannarnir gengju um hana eins og sína séreign. Ennfremur sagðist hann hafa í fórum sínum myndband sem sýndi óboðlega framkomu þeirra við börn hans og bauðst til að leggja það fram í dómnum. Dómarinn svaraði því hins vegar til að öll sönnunargögn væri þegar búið að leggja fram í málinu.

Nágranninn Ágúst sakaði Björn um „fjárkúgun“ en hann sagði að Björn hefði boðist til að fella niður kröfu um að hann fjarlægði veröndina ef hann greiddi sér 500 þúsund krónur til að fjármagna upphækkun á svalahandriði sínu. Segir hann þessa uppástungu hafa komið fram árið 2012 en framreiknað virði 500 þúsund króna er rúmlega 700 þúsund krónur í dag.

Ágúst sagðist telja að stefnan gegn sér væri sett fram af illkvittni og hann lýsti sig líka fullkomlega ósammála framburði Ernu sem hélt því fram í sinni skýrslutöku að hún og Björn hefðu leitað sátta í málinu.

Allir velkomnir á pallinn?

Nokkuð var tekist á um hvort veröndin/pallurinn væri í raun öðrum íbúum en íbúum á neðri hæð hússins aðgengileg(ur) eða ekki. Gísli benti á að atvik þess efnis að amast hefði verið við bolta sem lent hefði á veröndinni segði ekkert til um slíkt. Var því neitað að fjölskyldunni á efri hæðinni hefði verið meinaður aðgangur að pallinum.

Ragnar Björgvinsson, lögmaður Ernu, benti á að hér væri ásýnd lykilatriði og flestir sem kæmu að myndu álíta að pallurinn tilheyrði neðri hæðinni. Þá væri lykilatriði að pallurinn hefði verið byggður án samráðs við eigendur efri hæðarinnar og án þeirra samþykkis. „Stefndi er búinn að gera þennan hluta af sameigninni að sínum,“ sagði Ragnar.

Töluvert var tekist á um „tómlætis“-spursmálið. Gísli sagði það vera lykilatriði að ekki hefði verið með formlegum hætti amast við framkvæmdinni fyrr en árið 2022, eða 11 árum eftir að Erna og Björn fengu vitneskju um hana. Ragnar sagði það aukaatriði hvort um formlegar athugasemdir væri að ræða eða ekki. Fyrir lægi erindi þeirra til byggingarfulltrúa árið 2012 og málið hefði síðan oft borið á góma í samskiptum þeirra, meðal annars á húsfundum.

Í málflutningi sínum vísuðu bæði Gísli og Ragnar til dómafordæma til að styðja mál sitt. Ragnar benti á úrskurð kærunefndar húsamála í máli þar sem kært var til nefndarinnar árið 1998 vegna palls sem byggður hafði verið meira en 20 árum fyrr. Engu að síður hefði það verið niðurstaða nefndarinnar að sá pallur skyldi fjarlægður. Ekki væri hægt að vísa til fyrningar og hefðar í þessum efnum og á þeim grundvelli væri ekki hægt að öðlast sérstakan rétt til sameignar.

Dómur verður kveðinn upp í málinu innan fjögurra vikna. Dómari er Arnaldur Hjartarson héraðsdómari.

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd