fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024
Fréttir

Pólverjinn með skrautlegan feril á Íslandi – „Hann á heima í fangelsi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 18. febrúar 2023 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frétt DV á þriðjudag um hremmingar pólskra kvenna sem réðu sig til starfa hjá samlanda sínum hér á landi en sátu síðan uppi peningalausar, húsnæðislausar og atvinnulausar, vakti mikla athygli. Maðurinn, sem er tæplega þrítugur að aldri og hefur starfað hér á landi síðan árið 2020, liggur undir miklu ámæli fyrir fjársvik. Hann heitir Przemyslaw Adamka og er eftirlýstur í Póllandi. Samkvæmt gögnum sem DV hefur undir höndum hafa tvær handtökuskipanir verið gefnar út á hann en önnur hefur verið afturkölluð. Sú er tilkomin vegna fjársektar sem að lokum var greidd upp. Seinni handtökuskipunin er vegna þjófnaðar og var hún gefin út í maímánuði árið 2022.

Hér á landi hefur Adamka rekið fyrirtækin Furuverk og PR Hús. Einnig hefur hann auglýst störf við hreingerningar hjá fyrirtækinu Cleanhomes en það fyrirtæki er ekki til, hefur enga kennitölu. PR Hús virðist vera hreingerningafyrirtæki en Furuverk var byggingarþjónusta. Furuverk var tekið til gjaldþrotaskipta í lok september í fyrra og standa skipti á þrotabúinu nú yfir. Fyrirtækisbíll Furuverks sem konurnar sem DV ræddi við keyrðu í á gististað sinn hefur verið gerður upptækur af skiptastjóra þrotabúsins. PR Hús er enn starfandi en samkvæmt gögnum sem DV undir höndum þá hafa skattyfirvöld lokað virðisaukaskattnúmeri PR Húsa. Það þýðir að félagið getur löglega ekki gefið út reikninga. Þó hefur DV heimildir fyrir því að verið sé að gefa út reikninga í nafni fyrirtækisins en þeir eru þá í raun ólöglegir.

Pólsk kona að nafni Klaudia Troscianko, sem er þrítug að aldri, en hefur búið á Íslandi frá tíu ára aldri og talar íslensku, segir að Adamka hafi svikið 7,6 milljónir króna út úr móður hennar en náðst hafi til baka 2,5 milljónir króna fyrir atbeina lögfræðings. „Hann sagði mömmu að hann gæti hjálpað henni að græða peninga með því að kaupa lóð í Póllandi og selja hana aftur. Mamma átti að láta hann fá tvær milljónir og fá til baka fimm milljónir. Þegar hann átti að millifæra á mömmu gerði hann viljandi villu í millifærslunni og sendi henni svo skjáskot af millifærslu sem þó var aldrei framkvæmd,“ segir Klaudia. DV hefur undir höndum skjáskot af fölsku millifærslunni og hefur heyrt fleiri frásagnir af slíkum millifærslum frá Adamka. Klaudia segir jafnframt að Adamka hafi flutt inn fyrir móður hennar rafmagnsnuddrúm sem virkaði ekki og ónýta skápa.

Sendi mynd af timbri sem aldrei skilaði sér

Ungversk kona, búsett hérlendis, segist hafa verið illa svikin í viðskiptum við Adamka. Hún segist hafa, ásamt fleira fólki, fallið í þá gryfju að borga Adamka fyrirfram efniskostnað vegna verkefna sem hann átti að vinnna fyrir hana en efnið hafi ekki skilað sér. Það var alltaf á leiðinni timbur úr Húsasmiðjunni eða Bauhaus eða frá Póllandi og einu sinni sendi Adamka konunni meðfylgjandi mynd sem átti að sýna timbur sem hann sagði vera á leiðinni en skilaði sér síðan aldrei.

„Einu sinni sagði hann okkur að hann væri á leiðinni að kaupa efni og við þyrftum að senda honum peninga, sem við gerðum,“ segir konan og sendir DV skjáskot sem sýna samskipti um þetta. „Hann var stöðugt að senda okkur skilaboð um að hann væri að fara að ljúka verkinu en hann gerði það aldrei,“ segir konan ennfremur.

Konan skrifaði um þessi vinnubrögð Adamka á Facebook-síðu Furuverks og þá sendi Adamka henni harðar ásakanir í skilaboðum sem DV hefur undir höndum og sakaði hana um að eyðileggja líf sitt. Hún segir ennfremur: „Hann var alltaf að segja okkur að hafa samband við lögfræðinginn sinn og leysa málin en það tókst aldrei að koma á neinum fundum með lögfræðingnum.“

Konan spyr hvers vegna eftirlýstur maður geti rekið fyrirtæki á Íslandi. „Í mínu landi þarftu að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta átt eða rekið fyrirtæki. Sá sem hefur ekki hreint siðferðisvottorð eða hefur gerst brotlegur við skattalög, eða er undir 18 ára aldri, getur ekki fengið að reka fyrirtæki. Svo er það bara líka mín skoðun að þeir sem koma hingað til lands og eru erlendir ríkisborgarar eigi að sýna fram á hreint sakavottorð áður en þeir fara að starfrækja fyrirtæki á Íslandi.“

Konan lýsir líka yfir óánægju með að tilraunir hennar til að vara við Adamka og starfsemi hans í Facebook-hópum hafi verið stöðvaðar og færslum hennar eytt. „Það er meira en ár síðan ég byrjaði að vara við þessum manni og ég er svo fegin að fjölmiðlar eru loksins farnir að segja frá vinnubrögðum hans.“

Hvað varðar verkefni mannsins fyrir konuna var aðalhluti þess gerð verandar en einnig réð hún hann til ýmissa smærri verkefna. Segist hún hafa greitt honum rúmlega 3,5 milljónir fyrir efni og vinnu. „Veröndin var svo illa gerð að það snjóaði inn, sem olli bleytu og skemmdum,“ segir konan, sem er með gögn yfir allar greiðslur til Adamka. Segir hún að hann hafi endurgreitt sér örlítinn hluta af þessum kostnaði. „Þetta var virkilega erfitt ár með honum. Allar lygarnar hans, allt þetta brjálæði,“ segir konan.

„Hann á heima í fangelsi“

DV ræddi við pólskan rafvirkja að nafni Marcin Murszewski, sem segir að Adamka skuldi sér 1,2 milljónir króna. „Það er hafið yfir allan vafa að Przemyslaw Adamka er glæpamaður sem leggur í vana sinn að ljúga að fólki. Ég átti í mjög ógeðfelldum samskiptum við manninn. Hann fékk lánaða frá mér verulega upphæð til að hefja rekstur byggingarfyrirtækis, aðallega til að festa kaup á byggingarefnum til nota í fyrirliggjandi verkefni. Og frá því augnabliki sá ég hvorki hann né peningana. Hann greiddi örlítið til baka síðar en skuldar mér í dag 1,2 milljónir. Ég vona að íslenska lögreglan hafi hendur í hári hans og dómstóll dæmi hann til fangelsisvistar því hann á heima í fangelsi.”

Meint svik við verktaka, veitingastað, gististað og bílaleigu

DV ræddi við gistihússeiganda sem aðspurður sagði að Adamka skuldaði honum töluverðar fjárhæðir fyrir gistingu. Hann væri hins vegar að reyna að fá hann til að til að greiða eins og hann hafi marglofað. Eigandi veitingastaðarins Matstöðvarinnar sagði einnig aðspurður að Adamka skuldaði honum fé fyrir mat sem starfsmenn á hans vegum hafa snætt. Hann vildi hins vegar ekki greina frekar frá málinu. Eigandi bílaleigu sagði DV einnig frá því að Adamka skuldaði honum fé vegna leigu á bílum.

Gistihússeigandinn sagði að Adamka hefði lag á því að koma sér í mjúkinn hjá manni og fá fólk til að trúa loforðum og fagurgala. Hann virtist sleginn eftir samskipti sín við manninn.

DV hafði samband við verktaka sem segir Adamka hafa flutt inn fyrir sig byggingavörur sem ekki skiluðu sér en greitt hafði verið fyrir. Segist maðurinn vera í því ferli að endurheimta fé frá Adamka og ekki sé útséð með þau skil.

Í Messenger-grúppu sem stofnuð hefur verið til höfuðs Adamka lýsa margir, bæði Íslendingar og útlendingar, slæmri reynslu af viðskiptum við hann og fyrirtæki hans, Furuverk. Verk hafi verið illa unnin og veggklæðning (sjá mynd) hafi verið þannig að hægt hafi verið að rífa hana af með berum höndum. Kona ein segir starfsmenn Adamkas hafa verið drukkna og dópaða við störf sín hjá henni og það hafi þurft að fá aðra menn til að vinna verkin eftir þá því þeirra vinna hafi verið gagnslaus.

Sem fyrr segir hefur Adamka verið kærður til lögreglu vegna samskipta hans við pólsku konurnar sem komu hingað til lands til að þrífa fyrir fyrirtækið Cleanhomes sem er þó ekki til. Hann er eftirlýstur fyrir fjársvik í Póllandi og hér virðist hann víða skulda fé og eiga óuppgerð mál. Í áðurnefndri Messenger-grúppu er varað sterklega við viðskiptum við þennan unga Pólverja.

Krónan neitar öllum tengslum við manninn

Fyrir helgi hringdi Adamka í eina af konunum sem hann er sakaður um að hafa komið á kaldan klaka, í grein DV, og sagðist ætla að greiða þeim öllum það sem hann skuldar þeim á mánudag. Segir hann jafnframt að samningar við Krónuna um þrif hafi verið á lokametrunum þegar umfjöllun DV birtist. DV hafði samband við stjórnendur hjá Krónunni sem staðfestu að engin merki finnist um að Krónan hafi nokkurn tíma átt í samskiptum við Adamka eða fyrirtæki hans varðandi hreingerningar eða nokkuð annað. Sver Krónan af sér öll tengsl við manninn.

Nýjar fréttir af konunum

Af konunum sem stigu fram í umfjöllun DV á þriðjudag er það að frétta að þær eru allar komnar með vinnu í Reykjavík. Þær eru ennfremur komnar með húsnæði í borginni til eins mánaðar en unnið er að því að útvega þeim framtíðarhúsnæði. Sjálfar vilja þær ekkert frekar en að vinna og starfa í Reykjavík og eru þær annálaðar fyrir dugnað.

F.v. Martyna Ciecholińska, Alina Kottlewska, Małgorzata Olszewska, Aleksandra Trzopek og Natalia Jakrzewska. Mynd: Valli

Einn viðmælandi DV við vinnslu þessarar greinar vill láta þess getið að hann hafi afar góða reynslu af samskiptum við Pólverja á Íslandi sem hann álítur upp til hópa vera duglegt og heiðarlegt fólk.

Svör PR Húsa um samskiptin við konurnar

Í vikunni leitaði DV viðbragða hjá Adamka við ávirðingum pólsku kvennanna sem komu til starfa fyrir hann hingað til lands. Svar barst með tölvupósti þar sem rætt var um Adamka í þriðju persónu og var pósturinn með undirrituninni PR Hús. Í póstinum var meðal annars sagt að greitt hefði verið fyrir fyrstu gistinótt kvennanna en greiðslan hefði ekki gengið í gegn vegna bilunar. Ennfremur sagði að konurnar hefðu vilja til að vinna áfram hjá PR Húsum. Þá segir að ekki hafi verið svarað í síma á gististaðnum einn morguninn þegar aðili frá fyrirtækinu kom að sækja konurnar til vinnu.

Ennfremur var sagt í póstinum að samskipti við konurnar væru á ábyrgð fyrirtækisins i heild en ekki einstakra starfsmanna og þar með ekki Adamka. Varðandi eftirlýsingu á Adamka í Póllandi sagði að þau mál væru í farvegi en hann væri eftirlýstur vegna falskra ásakana  á hans hendur. Ekki væri hægt að framvísa gögnum eða veita frekari svör um það á meðan málin væru enn í farvegi en lögfræðingur hans ynni að úrlausn þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Gagnrýnir Bjarna og Guðmund harðlega: „Þeir voru bókstaflega hlæjandi á meðan hún talaði“

Gagnrýnir Bjarna og Guðmund harðlega: „Þeir voru bókstaflega hlæjandi á meðan hún talaði“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Pétur Jökull talinn vera fimmti sakborningurinn í stóra kókaínmálinu – Talinn hafa hitt annan sakborning í miðborginni

Pétur Jökull talinn vera fimmti sakborningurinn í stóra kókaínmálinu – Talinn hafa hitt annan sakborning í miðborginni
Fréttir
Í gær

Þorvaldur varpar sprengju um meint lögbrot Hæstaréttar sem lögreglan neitaði að rannsaka – „Ég á bréfin heima. Ég hef aldrei sagt frá þessu áður“ 

Þorvaldur varpar sprengju um meint lögbrot Hæstaréttar sem lögreglan neitaði að rannsaka – „Ég á bréfin heima. Ég hef aldrei sagt frá þessu áður“ 
Fréttir
Í gær

Frosti segir yfirlýsingu Ingibjargar dapra – „Fleiri slúðursögur réttlæta varla það að leyfa ekki ásökuðum manni að bera hönd fyrir höfuð sé“

Frosti segir yfirlýsingu Ingibjargar dapra – „Fleiri slúðursögur réttlæta varla það að leyfa ekki ásökuðum manni að bera hönd fyrir höfuð sé“
Fréttir
Í gær

Komnir heim til Bretlands eftir hörmulegt slys á Íslandi

Komnir heim til Bretlands eftir hörmulegt slys á Íslandi
Fréttir
Í gær

Ekki í bílbelti og í símanum rétt áður en hann dó í bílslysi

Ekki í bílbelti og í símanum rétt áður en hann dó í bílslysi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reykholtsmálið: Fólk tengt fjölskylduböndum grunað um fjárkúgun og líkamsárás gegn palestínskum manni – Sendu hann illa farinn úr landi

Reykholtsmálið: Fólk tengt fjölskylduböndum grunað um fjárkúgun og líkamsárás gegn palestínskum manni – Sendu hann illa farinn úr landi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirþjálfara fimleikadeildar Gróttu sagt upp störfum – Málið tengist þjálfunaraðferðum hjá umdeildum gestaþjálfara

Yfirþjálfara fimleikadeildar Gróttu sagt upp störfum – Málið tengist þjálfunaraðferðum hjá umdeildum gestaþjálfara