Þetta er niðurstaða mælinga sem jarðvísindamenn við Háskóla Íslands hafa gert. Morgunblaðið hefur eftir Þorvaldi Þórðarsyni, prófessor í eldfjallafræði, að þetta sýni að kvikan sé öll af sama stofni, þrátt fyrir að Fagradalsfjall og Svartsengi hafi fram að þessu verið talin vera sitt hvort eldstöðvakerfið. „Ég er farinn að hallast að því að það gæti verið betra að líta á Reykjanesskagann sem eitt kerfi frekar en mörg ólík,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið.
Hann hefur áður haft uppi efasemdir um ríkjandi kenningar um að jafnvel séu sex mismunandi eldstöðvarkerfi á skaganum. „Það getur verið að mismunandi hlutar af kerfinu taki við sér á mismunandi tímum. Það er þá bara hvernig landið liggur hverju sinni sem ákvarðar það,“ sagði hann einnig.
Hvað varðar yfirstandandi gos, þá telur hann að það hafi náð hámarki en því fari hins vegar víðsfjarri að atburðarásinni á Reykjanesskaga sé lokið og að öllum líkindum muni sagan endurtaka sig.