fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Fréttir

Var á sjúkrahúsi eftir alvarlegt bílslys þegar fundurinn hjá Vinnumálastofnun átti að fara fram – Kallar framkomu stofnunarinnar í kjölfarið hreina mannvonsku

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. desember 2023 21:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekki tekið út með sældinni að þiggja atvinnuleysisbætur. Fyrir slíkum greiðslum eru sett ströng skilyrði um atvinnuleit og má lítið út af bregða. Þetta sést skýrt í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem féll í lok júní, þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta einstaklings fyrir að fylgja ekki reglum. Úrskurðurinn var fyrst birtur á vefsíðu Stjórnarráðsins í dag.

Beittur viðurlögum fyrir að lenda í bílslysi

Einstaklingur kærði til úrskurðarnefndar ákvörðun Vinnumálastofnunar frá mars á þessu ári um að stöðva greiðslur til hans. Kærandi sótti fyrst um bætur í apríl á síðasta ári og var umsókn samþykkt í mái.

Kærandi vísaði til þess að þessi ákvörðun hafi verið sérstaklega ósanngjörn. Hana megi rekja fyrst til þess að hann mætti ekki í viðtal hjá Vinnumálastofnun á Austurlandi þann 23. nóvember í fyrra. Fyrir þetta beitti Vinnumálastofnun þeim viðurlögum að setja umsókn kæranda á bið í þrjá mánuði, svo hann fékk þá engar greiðslur.

Ekki hafi verið tekið tillit til þess að fjarveran átti sér eðlilegar skýringar en kærandi hafði lent í alvarlegur bílslysi tveimur dögum fyrir fundinn og enn verið á sjúkrahúsi þegar fundurinn átti að fara fram. Þetta sé staðfest með læknisvottorði, sem Vinnumálastofnun taki ekki gilt án nokkur rökstuðnings.

Refsað fyrir utanlandsferð þrátt fyrir að fá engar greiðslur

Þannig hafi staðan verið sú í desember að kærandi naut ekki bóta, þar sem hann var á biðtíma. Greip hann því tækifærið þegar fjölskylda hans bauð honum að verja jólunum með þeim erlendis. Taldi kærandi að sér væri heimilt að fara erlendis, enda væri hann ekki að þiggja greiðslur frá Vinnumálastofnun á ferðatímanum.

Fékk kærandi svo í kjölfarið tilkynningu frá Vinnumálastofnun um að umsókn hans væri komin í greiðslustöðvun. Hann hafi gerst sekur um annað brot með ótilkynntri dvöl erlendis. Kærandi hafði sérstaklega kynnt sér reglur um utanlandsferðir og á vefsíðu Vinnumálastofnunar var tekið fram að ferðalög erlendis þyrfti að tilkynna ef viðkomandi væri að þiggja bætur. Það hafi kærandi ekki verið að gera á þessum tíma. Eftir ferðina hafi hann ráðfært sig við starfsmann Vinnumálastofnunar sem hafi staðfest þennan skilning hans.

Taldi kærandi sig hlunnfarinn af samskiptum sínum við Vinnumálastofnun. Lítið væri gert úr slysi hans og aðstæðum og framkoman væri hrein og bein mannvonska.

Vinnumálastofnun rakti að í nóvember 2022 hafi kærandi verið boðaður í símaviðtal. Hann hafi þó ekki svarað þegar starfsmaður reyndi að hringja og engar skýringar gefið í kjölfarið. Hann hafi heldur engu svarað þegar tilkynnt var um viðurlög til þriggja mánaða. Það var svo í febrúar sem hann mætti í boðað viðtal og greindi þá frá utanlandsferðinni. Í kjölfarið var hann beittur greiðslustöðvun og þá fyrst barst læknisvotturð út af áðurnefndu bílslysi.

Bara hægt að vera í atvinnuleit á Íslandi

Vinnumálastofnun rakti að það sé skilyrði laga um atvinnuleysisbætur að þiggjendur slíkra bóta séu í virkri atvinnuleit og séu tilbúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, starfi hvar sem er á Íslandi án fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Fólk þarf að vera statt á Íslandi til að njóta atvinnuleysistrygginga og upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á hugum þess eða annað sem getur haft áhrif á rétt.

Vinnumálastofnun tók fram í svörum sínum að texta. á vefsíðu hafi nú verið breytt svo hann sé skýrari, til að koma í veg fyrir sama misskilning og í máli þessu. Engu að síður hefði kærandi mátt vita að honum bæri að tilkynna um utanlandsferð, enda hafði honum verið tilkynnt að staðfesta þyrfti atvinnuleit á viðurlagatíma, sem hann hafi og gert.

Úrskurðarnefnd taldi að þrátt fyrir ófullnægjandi upplýsingar á heimasíðu Vinnumálastofnunar hefði kærandi mátt vita að honum bæri að tilkynna um ferðina, eða í það minnsta aflað sér upplýsinga um slíka tilkynningarskyldu. Þar með hafi hann brotið gegn skyldum sínum. Hins vegar hafi Vinnumálastofnun borið að taka mál hans aftur til skoðunar eftir að læknisvottorðið barst og endurskoða málið út frá því.

Engu að síður var ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest, en lagt fyrir Vinnumálastofnun að afgreiða erindi kæranda með formlegum hætti hvað varðar bílslysið og læknisvottorðið. Eftir atvikum geti kærandi svo leitað aftur til úrskurðarnefndarinnar í kjölfarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

98 ára úkraínsk kona gekk 10 km í skothríð til að sleppa frá Rússum – „Ég lifði síðari heimsstyrjöldina af og ég mun lifa þetta stríð af“

98 ára úkraínsk kona gekk 10 km í skothríð til að sleppa frá Rússum – „Ég lifði síðari heimsstyrjöldina af og ég mun lifa þetta stríð af“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“
Fréttir
Í gær
Hera úr leik