fbpx
Föstudagur 10.maí 2024
Fréttir

Ingi dæmdur fyrir tælingu og peningafals – Drengir slógu skjaldborg um stúlkuna

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. desember 2023 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur birt tæplega vikugamlan dóm yfir Inga Sigurði Svanssyni en hann var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar gegn 14 ára stúlku og til vara fyrir nettælingu. Þar að auki var hann ákærður fyrir peningafals. Ingi var sýknaður af ákærunni fyrir tilraun til nauðgunar en sakfelldur fyrir nettælingu og peningafals. Fram kemur í dómnum að það hafi verið hópur drengja, vinir brotaþola sem er stúlka, sem hafi upphaflega tilkynnt um tilraunir hans til tælingar

Í dómnum segir að Ingi hafi tvívegis í september 2021, sett sig í samband við 14 ára gamla stúlku í gegnum Snapchat, og mælt sér mót við hana í Reykjanesbæ. Í ákærunni kom fram að Ingi hafi ætlað sér að hafa samræði eða önnur kynferðismök við stúlkuna og í því skyni tekið sér far frá Reykjavík til Reykjanesbæjar og leigt þar hótelherbergi.

Þar að auki var Ingi ákærður fyrir peningafals fyrir að hafa aflað sér þriggja falsaðra 5000 króna peningaseðla í því skyni að koma þeim í umferð. Seðlarnir hafi fundist við leit lögreglu í bakpoka Inga þegar hann var handtekinn í september 2021.

Um málsatvik segir í dómnum að í lok september 2021 hafi lögreglunni borist tilkynning um mann sem hefði verið að reyna að tæla stúlkuna til sín í Reykjanesbæ og ógnað vinum hennar með hníf en farið síðan á brott í bifreið.

Vinir stúlkunnar sneru sér til lögreglu

Í dómnum kemur fram að hópur drengja, sem eru vinir stúlkunnar, hafi þennan dag komið á lögreglustöð og tilkynnt að maður sem kallaði sig Ingi á Snapchat hefði ætlað að hitta stúlkuna og fara með hana á hótel til að eiga við hana samræði. Drengirnir sögðust hafa farið að hitta manninn ásamt stúlkunni og spurt hvað hann væri eiginlega að hugsa að eiga í slíkum samskiptum við 14 ára stúlku. Hafi maðurinn þá ógnað þeim með hnífi og haldið síðan á brott í bifreið. Þeir hafi hringt á lögreglu en stúlkan hlaupið burt.

Lögreglan fann fljótlega manninn sem reyndist vera Ingi. Við leit í bakpoka hans fundust 5000 króna seðlarnir sem voru allir með sama raðnúmeri og lögreglan taldi því víst að þeir væru falsaðir. Einnig fundust skæri sem lögregla taldi líklegt að drengirnir hefðu talið vera hníf.

Stúlkan tjáði lögreglu að hún hefði litið á samskipti sín við Inga á Snapchat sem „hálfgert djók“ og stundum ekki lesið skilaboð frá honum heldur svarað með  „já.“ Hún sagðist vera búin að loka á hann á Snapchat og öllum samskiptum þeirra þar verið eytt fyrir utan skjáskot af samtali. Umræddir vinir stúlkunnar höfðu þá þegar látið lögreglu hafa skjáskotið. Hún sagði að Ingi hefði haldið á einhverju og verið ógnandi þegar hún hitti hann ásamt vinum sínum en gat ekki staðfest að um væri að ræða hníf.

Þau samskipti sem varðveist hafa milli Inga og stúlkunnar eru rakin í dómnum og voru þau bersýnilega af kynferðislegum toga af hálfu Inga sem bað meðal annars um að stúlkan sendi honum mynd þar sem sæist í brjóstahaldara hennar en hún neitaði að gera það þar sem hún væri bara í 9. bekk.

Kannaðist ekki við neitt

Ingi tjáði lögreglu að hann hefði ekki vitað hvað stúlkan væri gömul. Hann ýmist sagðist ekki kannast við samskipti þeirra á Snapchat, ekki muna eftir þeim eða neitaði að tjá sig um þau. Hann hefði mælt sér mót við stúlkuna til að fá að staðfest að hann hefði verið í samskiptum við stúlku en þá hefði beðið hópur stráka eftir honum. Hann hafi þá orðið hræddur og hlaupið í burtu og það hafi aldrei verið ætlunin að hafa kynmök við stúlkuna.

Hvað varðaði 5000 króna seðlana þá hefði hann fengið þá nokkrum mánuðum áður en aldrei reynt að nota þá.

Við skýrslutöku í Barnahúsi lýsti stúlkan samskiptum sína við Inga nánar. Þar kom meðal annars fram að aldrei hefði legið skýrt fyrir að ætlunin væri að hittast til að stunda kynlíf. Stúlkan sagði að þau kynferðislegu skilaboð frá Inga sem lögregla hefði undir höndum hefðu verið ógeðsleg og hún vart skilið þau á köflum en það hafi samt blasað við að hann hafi viljað stunda kynlíf með henni. Þegar hún hefði hitt hann ásamt drengjunum hefði hún staðið fyrir aftan þá og Ingi aldrei séð hana.

Fyrir dómi sagði Ingi að stúlkan hefði haft frumkvæði að því að þau myndu hittast en hann talið um unga konu að ræða sem væri um tvítugt. Hann sagðist hafa verið leiddur í gildru þegar hann hitti stúlkuna og vini hennar. Þegar borin voru undir hann samskiptin af Snapchat þar sem stúlkan sagði að hún væri í 9. bekk sagðist hann ekkki muna eftir þeim samskiptum og heldur ekki þeim kynferðislegu skilaboðum sem hann sendi stúlkunni. Hann sagðist ekki muna af hverju hann hefði í samskiptunum boðið stúlkunni að koma með sér á hótel. Ætlun hans hafi ekki verið að stunda kynlíf með henni.

Fyrir dómi sagði stúlkan að hún hefði haldið samskiptum sín við Inga áfram mestmegnis af forvitni þrátt fyrir að hún hafi talið ógeðslegt að hann væri að reyna að hitta hana.

Hún trúverðug en hann ekki

Í niðurstöðu dómsins segir að framburður stúlkunnar sé trúverðugur og það hafi komið vel fram í samskiptum hennar og Inga hvað hún var gömul og að hann hefði haft kynferðislegan áhuga á henni.

Framburður Inga var hins vegar talinn ótrúverðugur. Til að mynda að hann hafi talið sig vera að hitta konu um tvítugt. Skilaboðin þeirra á milli séu sönnun þess að hann hafi ætlað sér að hitta stúlkuna til að eiga samræði við hana þó hann hafi þrætt fyrir það.

Hins vegar var hann ekki sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar þar sem Héraðsdómur segir að gjörðir Inga hafi falist í undirbúningi að háttsemi sem sé of fjarlæg tilraun til nauðgunar eins og hún sé skilgreind í lögum.

Sannað þótti hins vegar að Ingi hefði gerst sekur um tælingu. Hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa ætlað að koma fölsuðu 5000 króna seðlunum í umferð en Héraðsdómur taldi ekki trúverðugt að hann hafi ekki vitað af þeim þegar lögregla fann þá í bakpoka hans.

Tælingarbrot Inga þóttu gróf og var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi en þar sem tvö ár voru liðin frá brotunum er fangelsisdómurinn skilorðsbundinn en í dómnum segir að Inga verði ekki kennt um drátt málsins. Ekki er tekið fram í dómnum að honum hafi verið gerð sérstök refsing vegna peningafalsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ingi kemst í kast við lögin en í dómnum segir að í mars 2021 og í apríl 2023  hafi hann gengist undir greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar með viðurlagaákvörðun héraðsdóms vegna umferðarlagabrota og í síðara tilvikinu einnig vegna vopnalagabrots.

Í fréttum fjölmiðla árið 2004 kom fram að Ingi hafi þá verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að selja hass sem smyglað var til landsins í hjólbörðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Víðir fékk að heyra það frá fréttakonu Stöðvar 2 eftir pistil sem hann skrifaði

Víðir fékk að heyra það frá fréttakonu Stöðvar 2 eftir pistil sem hann skrifaði
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Saka Rússa um að nota efnavopn

Saka Rússa um að nota efnavopn
Fréttir
Í gær

Sökuð um að stela tæplega níu milljónum frá Grunnskólanum á Þórshöfn og félagsmiðstöð í Langanesbyggð

Sökuð um að stela tæplega níu milljónum frá Grunnskólanum á Þórshöfn og félagsmiðstöð í Langanesbyggð
Fréttir
Í gær

Svört skýrsla um rekstur hestamannafélagsins Fáks – Fullyrðingar um svartar launagreiðslur, ólöglegt vinnuafl og óeðlileg vildarkjör – Formaður félagsins segir skýrsluna einhliða og ekki gefa rétta mynd

Svört skýrsla um rekstur hestamannafélagsins Fáks – Fullyrðingar um svartar launagreiðslur, ólöglegt vinnuafl og óeðlileg vildarkjör – Formaður félagsins segir skýrsluna einhliða og ekki gefa rétta mynd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

María Sigrún svarar Degi fullum hálsi og birtir samskiptin – Segir viðbrögð fyrrum borgarstjóra „nýja upplifun“

María Sigrún svarar Degi fullum hálsi og birtir samskiptin – Segir viðbrögð fyrrum borgarstjóra „nýja upplifun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurbjörg sakar Ásdísi um ólýðræðisleg vinnubrögð – „Hér er verið að afvegaleiða umræðuna,“ segir bæjarstjórinn

Sigurbjörg sakar Ásdísi um ólýðræðisleg vinnubrögð – „Hér er verið að afvegaleiða umræðuna,“ segir bæjarstjórinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagur undrandi á Kastljóssþætti Maríu Sigrúnar – „Drungalegt fundarherbergi og fiðlutónlist undir“

Dagur undrandi á Kastljóssþætti Maríu Sigrúnar – „Drungalegt fundarherbergi og fiðlutónlist undir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sá grunaði í Hamraborgar-ráninu bar ábyrgð á hrinu innbrota á höfuborgarsvæðinu fyrir rúmum áratug

Sá grunaði í Hamraborgar-ráninu bar ábyrgð á hrinu innbrota á höfuborgarsvæðinu fyrir rúmum áratug