fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fréttir

Bent á flóðahættu á Bifröst – 250 manna þorp gæti orðið flöskuháls

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 4. nóvember 2023 08:00

Hlöðver sendi Borgarbyggð bréf vegna mögulegrar flóðahættu í þorpinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hlöðver Stefán Þorgeirsson, umhverfisverkfræðingur hjá Veitum og sérfræðingur í straumfræði, hefur sent sveitarstjórn Borgarbyggðar erindi vegna hugsanlegrar flóðahættu á Bifröst. Ábendingin verður skoðuð við aðalskipulag.

Hlöðver kom ábendingunni til Borgarbyggðar sem almennur borgari eftir flóðin í Derna í Líbýu í september síðastliðnum. Þar hrundi stífla og meira en 10 þúsund manns fórust. Engin stífla er fyrir ofan Bifröst heldur á, sem getur breyst og flætt eins og aðrar ár.

„Náttúruvá getur alltaf komið þegar þú átt ekki von á henni. Þó að þessi atburður sé kannski ekki líklegur þá tel ég það skyldu mína sem sérfræðingur að benda á þennan möguleika. Sumir atburðir eru fátíðir en samt alvarlegir,“ segir Hlöðver.

Skriður á Seyðisfirði komu á óvart

Umræða um náttúruvá hefur verið mikil á undanförnum árum, ekki aðeins jarðhræringar og eldgos heldur einnig snjóflóð og skriður. Aurskriðurnar miklu á Seyðisfirði í desember árið 2020 komu mörgum í opna skjöldu og hreyfðu við umræðunni.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi þingmaður, hefur farið fyrir umræðunni um hættumat og vöktun vegna náttúruvár síðan vorið 2021.

Klakastífla gæti orsakað flóð

Í þorpinu Bifröst í Norðurárdal búa um 250 manns. Þorpið hefur byggst upp í kringum Háskólann á Bifröst og þar á undan Samvinnuskólann.

„Ef rýnt er í loftmyndir sést að áin rétt fyrir ofan þorpið hverfur ofan í hraun,“ segir Hlöðver. „Ef árfarvegurinn myndi breytast bendir flest til þess að hún myndi renna í gegnum þorpið.“

Loftmynd af flóðafarveginum.

Það sem gæti orsakað flóð væri til dæmis einhvers konar fyrirstaða, svo sem klakastífla sem lokaði farveginum og beindi honum aðra leið. Þá sé einnig hægt að ímynda sér að áin gæti flætt beint upp úr sprungunni sem hún hverfur ofan í, og þá niður brekkuna í þorpið.

„Á loftmyndum norðan við þorpið sjást þurrir farvegir sem virðast leita niður í þorpið. Þorpið gæti orðið eins konar flöskuháls í hugsanlegum flóðafarvegi,“ segir Hlöðver. En byggingarnar í þorpinu eru svo gott sem búnar að loka farveginum ef frá er talið þröngt sund.

Flætt inn í hús

Mögulegt flóð á Bifröst yrði vitaskuld ekki jafn stórt og áðurnefnt flóð í Derna. En það gæti komið aftan að fólki og valdið tjóni. Til dæmis flætt inn í hús.

Borgarbyggð hefur vísað ábendingu Hlöðvers til vinnuhóps vegna heildarendurskoðunar aðalskipulags. Hlöðver hvetur sveitarfélagið til þess að greina flóðahættuna og innleiða mótvægisaðgerðir í deiliskipulagi sem miði að því að flóð geti átt sér stað með lágmarks tjóni. Fyrsta skrefið er að láta sérhæfðan vatnasérfræðing meta gilið sem mögulegan flóðafarveg.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?
Fréttir
Í gær

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna