Þetta sagði Zelenskyy í viðtali við breska götublaðið The Sun en þar ræddi hann eitt og annað.
„Ég er ekki alveg viss, en það hafa að minnsta kosti verið fimm eða sex morðtilraunir,“ sagði hann og bætti við að úkraínska leyniþjónustan hafi komið í veg fyrir þessi morðtilræði.
Hann var spurður hvort hann sé reiðubúinn til friðarviðræðna við Rússland en því svaraði hann ákveðið „nei“.
Þetta svar hans hefur vakið mikla athygli í Rússlandi: „Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelenskyy, vísar alfarið á bug hugmyndum um að hefja friðarviðræður við Rússland, þrátt fyrir erfiða stöðu úkraínska hersins á vígstöðvunum,“ skrifaði ríkisfréttastofan TASS.
Í viðtalinu sagði Zelenskyy einnig að hann hafi sett ofan í við Valery Zaluzny, æðsta yfirmann hersins, fyrir að hafa sagt í viðtali við The Economist í byrjun mánaðarins að stríðið við rússneska innrásarherinn væri í járnum. Hann sagði að Zaluzny og aðrir æðstu yfirmenn hersins eigi að halda sig frá stjórnmálum. „EF hermaður ákveður að fara í stjórnmálin, þá er það hans val. En þá getur hann ekki haldið áfram að stýra hernum,“ sagði hann.
Zelenskyy sagði einnig að stríðið væri nú komið á þann stað að um meiri kyrrstöðu sé að ræða þar sem reyni á úthald herjanna, ekki eigi að reikna með afgerandi sóknarsigrum Úkraínumanna.