fbpx
Föstudagur 04.júlí 2025
Fréttir

Flökkusaga með röngum viðbrögðum við hjartaáfalli gengur um Facebook

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 14. nóvember 2023 08:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það þarf nú kannski mikið til að maður fari að gera athugasemdir við flökkusögur sem eru á Facebook,“ segir Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, yfirlæknir hjartaþræðinga á Landspítalanum.

Ingibjörg var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem hún var spurð út í flökkusögu sem gengur um á Facebook þar sem farið er yfir viðbrögð við hjartaáfall. Óhætt er að segja að ráðin sem gefin eru í færslunni séu óvenjuleg og er eitt þeirra til dæmis að draga djúpt inn andann og hósta ítrekað og kröftuglega.

Ingibjörg segist efast um að þetta geri nokkurt gagn í flestum tilvikum. „Ekki nema að fólk veit þá að það er með lífsmarki. Það þarf nú kannski mikið til að maður fari að gera athugasemdir við flökkusögur sem eru á Facebook en stundum sér maður sig knúinn til að gera athugasemdir vegna þess að fólk kannski veit ekki fyrr en á reynir hvernig það bregst við þegar það veikist alvarlega og þess vegna er gott að almenningur viti hvað eru rétt viðbrögð ef það fær einkenni hjartaáfalls.“

Þetta eru einkennin

Ingibjörg segir að einkenni hjartaáfalls geti verið mismunandi en gjarnan sé um að ræða einhvern þyngslaverk fyrir brjósti sem getur leitt út í handleggi, aftur í bak eða upp í kjálka.

„Stundum er almenn vanlíðan með þessu, fólk getur kaldsvitnað og orðið óglatt,“ sagði hún og tók fram að það væri ekki eitthvað eitt ákveðið mynstur þegar kemur að einkennum hjartaáfalls. „En gjarnan eru þetta einhvers konar þyngsli fyrir brjósti með öðrum einkennum með.“

Ingibjörg var svo spurð hvernig best er að bregðast við þegar þessi einkenni gera vart við sig.

„Réttu viðbrögðin eru að kalla eftir hjálp,“ sagði hún og tók fram að stundum finnist fólki vandræðalegt að gera það. Það hugsi jafnvel hvað nágranninn myndi segja ef hann sæi sjúkrabíl fyrir utan húsið. Ingibjörg segir mikilvægt að láta vita, til dæmis maka, og ef viðkomandi er einn að hringja í Neyðarlínuna, 112, og fá ráð.

„Þar er náttúrulega afskaplega vel þjálfað fólk og ef það telur að þetta sé ekki alvarlegt þá vísar það fólki annað.“

Skiptir máli að bregðast rétt við

Aðspurð hvort fólki gæti gert eitthvað til að tryggja sig betur, ef það er einsamalt og langt í hjálp, sagði Ingibjörg:

„Þá er kannski hægt að láta einhvern vita sem er í grenndinni, annars gefur Neyðarlínan akkúrat þessi ráð. Oft er það þannig að einkennin eru ekki svona alvarleg og þau geta verið vægari. Þá geta þeir sem eru viðbragðsaðilar sent lækni á staðinn á undan ef það er langt í sjúkrabíl eða einhvern annan viðbragðsaðila og það fólk getur veitt góða aðstoð.“

Ingibjörg sagði miklu máli skipta að bregðast rétt við, sérstaklega ef um er að ræða bráða lokun á stórri kransæð. Þá sé um lífshættulegt ástand að ræða. „Þeim mun fyrr sem æðin er opnuð aftur þeim mun betur jafnar hjartað sig almennt.“

Ákvað að stíga inn í

Aðspurð hvort flökkusögur eins og þessi sem fjallað er um – og sést hér að ofan – séu slæmar fyrir heilbrigðisstarfsfólk og fólk almennt sagði Ingibjörg:

„Já, af því ég held að það sé líka þannig að það er eitthvað í mannlegu eðli, ef maður veikist, þá er það eitthvað í fólki að vilja að draga sig í hlé og leggjast einhvers staðar fyrir í lokuðu herbergi. Maður sér þetta líka hjá dýrum,“ sagði Ingibjörg og tók fram að það væri algengt að fólk sem upplifir einkenni hjartaáfalls vilji ekki hringja eftir aðstoð. Það sé jafnvel maki viðkomandi sem tekur frumkvæðið.

Ingibjörg segist sjálf ekki vera mjög virk á samfélagsmiðlum og því verði hún ekki vör við margar flökkusögur eins og þessa. Nokkrir aðilar hafi þó verið búnir að hafa samband og benda henni á þetta og spyrja hvort þetta væri rétt. „Þess vegna fannst mér rétt að stíga þarna inn í,“ sagði hún.

Viðtalið við Ingibjörgu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Fréttir
Í gær

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bæjarfulltrúi kærði bæjarstjórn Kópavogs til kærunefndar – Gerði í raun athugasemd við sína eigin skipan í ráð

Bæjarfulltrúi kærði bæjarstjórn Kópavogs til kærunefndar – Gerði í raun athugasemd við sína eigin skipan í ráð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tíu ára bandarísk stúlka lést úr hjartaáfalli í hitabylgjunni í Frakklandi

Tíu ára bandarísk stúlka lést úr hjartaáfalli í hitabylgjunni í Frakklandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ása mátti ekki selja jeppa Rex á eBay – „Ef þú ert áhugamaður um glæpasögu þá eiga þessi jeppi og hjólhýsi sína sögu“

Ása mátti ekki selja jeppa Rex á eBay – „Ef þú ert áhugamaður um glæpasögu þá eiga þessi jeppi og hjólhýsi sína sögu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Búið að landa tæplega 15 þúsund tonnum í Grindavík í ár

Búið að landa tæplega 15 þúsund tonnum í Grindavík í ár