Þetta sagði Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Hann sagði að með hverjum deginum sem líður, þá dragi úr líkunum á að það gjósi í Sundhnúkasprungunni.
Hann sagði að um helgina hafi mestar líkur verið á gosi í Sundhnúkagígaröðinni en nú séu meiri líkur á að kvikan komi upp í Eldvörpum. Nú þurfi að skoða mæligögn til að sjá hvort land sé enn að rísa undir Eldvörpum.
” Þegar kvikan er orðin nægileg til að komast upp til yfirborðs þá gerir hún það frekar þar [Eldvörpum] en á Sundhnúkasprungunni. Í fyrsta lagi þá erum við á flekamótum. Flekarnir eru stöðugt að fara í sundur en akkúrat flekamótin sjálf, þau geta haldið í sér í svolítinn tíma en þegar þau bresta þá myndast aðstæður svo að kvika komist til yfirborðs og það er að gerast á Reykjanesi,“ segir Ármann og bætir því við að þetta ástand muni vera í gangi næstu 10-15 ár á Reykjanesskaga,“ sagði hann einnig.
Hann sagði einnig að þegar þetta kerfi hafi lokið sér af, fari næsta kerfi af stað og þá séu það væntanlega Bláfjöll eða Krýsuvíkurkerfið sem fara af stað eða jafnvel Hengilskerfið.