fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Óttarr spyr hvort líf útlendinga sé minna virði hér á landi en líf Íslendinga? „Er gaurinn dauður“ – „hahha nahh“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 13. nóvember 2023 07:00

Myndband af ódæðinu var í umferð eftir morðið. Þetta er skjáskot úr því.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjaness yfir fjórum ungmennum, sem bundu enda á líf ungs Pólverja og tóku morðið upp á myndband, þurfum við sem samfélag að spyrja okkur þeirrar spurningar hvers virði líf erlends ríkisborgara sé hér á landi.

Þetta segir í inngangi greinar eftir Óttarr Makuch í Morgunblaðinu í dag. Hann vitnar í dóminn og segir að samkvæmt honum sé ekki að sjá að Pólverjinn ungi hafi unnið sér annað til sakar en að vera á röngum stað á röngum tíma. Sé atburðarásinni lýst sem leik kattarins að músinni. Þrjú hinna dæmdu hafi elt hann uppi, króað af, sparkað í maga hans og höfuð og að lokum drepið hann þegar eitt ungmennanna stakk hann sex sinnum með hníf.

„Lýsir dómurinn einnig niðurlægjandi framkomu ungmennanna í garð hins unga Pólverja, hvernig þau eltu hann og hæddust að honum áður en þau gengu í skrokk á honum og loks drápu hann, tóku morðið upp á myndband og létu vin sinn vita með smáskilaboðum hvað gerst hafði og svöruðu þegar spurt var til baka „er gaurinn dauður“, „hahha nahh“.

Hann bendir einnig á að í dómnum komi fram að hin ákærðu hafi ekki sýnt nein merki iðrunar og engu þeirra virst brugðið þegar árásin átti sér stað. Ekkert þeirra hafi spurst fyrir um líðan unga mannsins eftir að lögreglan mætti á vettvang og þau hafi reynt að ljúga og sagt að þau hafi ekkert séð eða að ofbeldi þeirra hafi verið sjálfsvörn.

„Í raun gefur lestur dómsins framan af til kynna að hin ákærðu eigi sér engar málsbætur og megi búast við að afplána langar fangelsisrefsingar. En þegar komið er að kafla dómsins um ákvörðun refsingar breytist hins vegar tónninn. Allt í einu lítur dómurinn þannig á að aðalárásarmaðurinn, sá sem að lokum réð unga Pólverjanum bana með því að stinga hann í hjartað, hafi ekki haft einbeittan ásetning til að myrða hinn unga Pólverja, þrátt fyrir að dómurinn hafi áður lýst atburðarásinni sem leik þriggja katta að mús, þrátt fyrir að dómurinn hafi lýst því hvernig árásarmennirnir þrír spörkuðu og stöppuðu ítrekað á höfði hins liggjandi Pólverja, hvernig aðalárásarmaðurinn hafði í vitna viðurvist hótað að stinga hinn unga Pólverja með hníf í hálsinn stuttu áður en hann á endanum stakk hann í hjartað,“ segir Óttarr og bætir við ef þessi atburðarás lýsi ekki einbeittum ásetningi til morðs, þá sé erfitt að ímynda sér hvað þurfi til að lýsa slíkum ásetningi. Einnig sé aldur árásarmannsins talinn honum til refsilækkunar.

„Þá lítur dómurinn svo á að tveir hinna þriggja árásarmanna sem beittu manninn alvarlegu og ítrekuðu ofbeldi hafi ekki haft ásetning til að drepa hann, þó svo að dómurinn hafi áður lýst árás þeirra sem leik þriggja katta að mús, þó svo að dómurinn hafi áður tekið fram að þeir hafi vitað að þriðji árásarmaðurinn var vopnaður hníf og heyrt skýra hótun hans um að stinga hinn unga Pólverja í hálsinn, þó svo að dómurinn hafi lýst því hvernig þeir spörkuðu og stöppuðu á höfði liggjandi Pólverjans. Voru þeir því dæmdir fyrir alvarlega líkamsárás en ekki morð og þeim gerð tveggja ára fangelsisrefsing, en frá þeirri refsingu dregst varðhaldsvist þeirra,“ segir hann síðan.

Hann víkur síðan að vægum dómnum yfir stúlkunni sem tók ofbeldið upp á myndband og bendir á að dómurinn hafi sagt aðkomu hennar að málinu svívirðilega. Samt sem áður hafi hún hlotið skilorðsbundinn dóm. Nefnir hann síðan til samanburðar að algeng refsing fyrir ölvun við akstur sé 30 daga óskilorðsbundið fangelsi.

„Hvernig má það vera að hópur ungmenna sem ræðst að tilefnislausu á ungan föður, mann í blóma lífsins, svívirða hann með fúkyrðum, hóta að stinga hann í hálsinn, sparka og stappa á höfði hans, og stinga hann sex sinnum með hníf, taka ódæðisverk sitt upp á myndband og sýna af sér enga iðrun né samúð þurfi ekki að afplána lengri refsingu en raun ber vitni? Er þetta sérstaklega athyglisvert þar sem refsingar í nýlegum morðmálum hafa verið umtalsvert þyngri. Hafa ber í huga að þó svo að ungmennin fjögur hafi verið ung að aldri, þá voru ódæðisverk þeirra engin bernskubrek heldur þvert á móti miskunnar- og glórulaust ofbeldi og þau virtust einskis iðrast. Getur verið að líf útlendings á Íslandi sé hreinlega ekki meira virði en þetta? Það er a.m.k. sú hræðilega spurning sem óttaslegnir Pólverjar á Íslandi spyrja sig í dag. Vafalaust er það líka spurning sem við Íslendingar sem samfélag þurfum bæði að spyrja og svara,“ segir hann síðan að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt
Fréttir
Í gær

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu