Jafet S. Ólafsson framkvæmdastjóri er látinn, 72 ára að aldri. Hann andaðist að morgni síðastliðins þriðjudags, 7. nóvember.
Greint er frá andlátinu í Morgunblaði dagsins.
Jafet lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1977 auk þess að vera löggiltur verðbréfamiðlari. Jafet kom víða við í íslensku viðskiptalífi á ferli sínum og var áberandi álitsgjafi um verðbréfaviðskipti hér á landi.
Jafet starfaði hjá iðnaðarráðuneytinu í níu ár frá 1975, hann var hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga frá 1984 til 1986 og Þróunarfélagi Íslands frá 1986 til 1988. Hann var útibússtjóri Iðnaðarbankans og seinna Íslandsbanka frá 1988 til 1994 en þá var hann ráðinn útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins, þar sem hann starfaði á árunum 1994 til 1996.
Hann stofnaði Verðbréfastofuna ásamt öðrum árið 1997 og var þar framkvæmdastjóri en seldi sinn hlut í henni 2006 og stýrði eftir það Veig, sem var fjárfestingarfélag.
Jafet sat í ýmsum stjórnum og lét til sín taka í félagsmálum, sat meðal annars í stjórn Vals og var formaður Bridgesambands Íslands. Þá má nefna að hann var konsúll fyrir Rúmeníu árum saman og var sæmdur rúmenskri orðu fyrir störf sín. Í Morgunblaðinu er jafnframt greint frá því að hann hafi lengi fengist við leiðsögn í Laxá í Aðaldal.
Eftirlifandi eiginkona Jafets er Hildur Hermóðsdóttir, kennari, bókmenntafræðingur og fyrrverandi útgefandi. Börn Jafets og Hildar eru Jóhanna Sigurborg, Ari Hermóður og Sigríður Þóra.