fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Sigfús Baldvin Ingvason látinn

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 6. nóvember 2023 12:35

Séra Sigfús Baldvin Ingvason. Mynd: Kirkjan.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vefur Þjóðkirkjunnar greinir frá því að séra Sigfús Baldvin Ingvason fyrrverandi prestur í Keflavíkurprestakalli sé látinn sextugur að aldri.

Í æviágripi sem fylgir andlátstilkynningunni kemur fram að Sigfús fæddist á Akureyri þann 10. apríl árið 1963.

Foreldrar hans voru Ingvi Svavar Þórðarson og Ásgerður Snorradóttir.

Sigfús varð stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1986 og lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla íslands 1. febrúar árið 1992.

Meðal starfa sem Sigfús hafði með höndum í kjölfarið voru umsjón með sunnudagaskóla í Digranessókn og barna- og æskulýðsstarfi KFUM og KFUK.

Sigfús var starfsmaður Kristilegra skólasamtaka og forstöðumaður sumarbúða KFUM og KFUK á Hólavatni.

Hann var fræðari á fermingarnámskeiðum í Skálholti og hafði umsjón með félagsstarfi fatlaðra í Reykjavík.

Sigfús var einnig æskulýðsfulltrúi í Fella- og Hólakirkju.

Sigfús var vígður til prests í Keflavíkurkirkju þann 15. ágúst árið 1993. Hann starfaði sem prestur í Keflavíkurprestakalli næstu 22 árin. Hann leysti þó af sem sóknarprestur í Útskálasókn í Kjalarnesprófastsdæmi árin 1995-1996.

Í fréttum fjölmiðla frá árinu 2006 kemur fram að miklar deilur vakti meðal sóknarbarna í Keflavík þegar gengið var framhjá Sigfúsi, sem var mjög vinsæll og virtur í sókninni, við skipan nýs sóknarprests. Hann ákvað hins vegar að starfa áfram í sókninni.

Séra Sigfús starfaði sem prestur í Keflavík allt þar til hann baðst lausnar frá embætti þann 1. ágúst árið 2015 af heilsufarsástæðum.

Í þá tæpu tvo áratugi sem séra Sigfús starfaði sem prestur í Keflavík setti hann mikinn svip á samfélagið. Hann gifti, skírði, fermdi og jarðsöng fjölda Keflvíkinga. Þar að auki sinnti hann sálgæslu og ýmsum öðrum verkum til að hjálpa sóknarbörnum sínum á lífsleiðinni.

Yfir séra Sigfúsi var bæði hlýja og ró sem gerði honum kleift að ná þeim mun betur til fólks.

Séra Sigfús var vinsæll meðal Keflvíkinga og fyrir honum var almennt borin mikil virðing.

Víst er að margir Keflvíkingar, þar á meðal sá sem þetta ritar, minnast hans með hlýju og þakklæti.

Eftirlifandi eiginkona séra Sigfúsar er Laufey Gísladóttir.

Dætur þeirra eru Birta Rut Tiasha Sigfúsdóttir og Hanna Björk Atreye Sigfúsdóttir.

Uppfært:

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var byggt á æviágripi sem birt var á vef Þjóðkirkjunnar. Upplýsingar í upphaflegri útgáfu æviágripsins voru hins vegar ekki allar réttar og það hefur nú verið leiðrétt. Fréttin hefur verið leiðrétt til samræmis við þær leiðréttingar sem Þjóðkirkjan gerði á æviágripinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt