Lögmaðurinn John Ray hefur tekið að sér hagsmunagæslu fyrir fjölskyldur tveggja kvenna sem fundust látnar við Gilgo-ströndina í New York. Fjölskyldurnar berjast nú fyrir því að Rex Heuermann verði ákærður fyrir morðin, en hann hefur þegar verið ákærður fyrir andlát þriggja kvenna sem fundust þarna við ströndina fyrir rúmum áratug síðan.
Rex er grunaður um að vera hinn alræmdi Long Island raðmorðingi, eða LISK. Eins hefur hann verið kenndur við Gilgo-ströndina þar sem hinar látnu fundust á árunum 2010 og 2011. Allt í allt fundust líkamsleifar 11 einstaklinga við ströndina. Níu þeirra voru konur sem talið er að hafa allar starfað við vændi en eins fannst eitt stúlkubarn og einn karlmaður af asískum uppruna. Fjórum kvennanna hafði verið banað með áþekkum hætti og hefur Rex verið ákærður fyrir morð þriggja þeirra og er talið að hann beri eins ábyrgð á þeirri fjórðu. Hinum hafði verið banað með öðrum hætti, þeim hafði verið banað fyrr en hinum fjórum og hafði líkamsleifum þeirra verið dreift á fleiri staði en bara Gilgo-ströndina.
Meðal þeirra látnu á Gilgo-ströndinni eru Shannan Gilbert og Karen Vergata. Rex hefur ekki verið ákærður fyrir morð þeirra, en John Rey gætir hagsmuna fjölskyldna þeirra og telur nær öruggt að Rex sé hinn seki. Þess til stuðnings boðaði lögmaðurinn til blaðamannafundar fyrir skömmu þar sem hann gerði grein fyrir frásögnum tveggja meintra vitna sem hafi sett sig í samband við lögmanninn. Annað vitnið hafi séð Rex með Shannan og hitt hafi séð bæði Rex og eiginkonu hans, hina íslensku Ásu Guðbjörgu Ellerup, með Karen.
Lögmaður Ásu tjáði sig eftir blaðamannafundinn og velti fyrir sér hvort þessi vitni gætu talist trúverðug. Líklegast væri Rey bara á höttunum eftir frægð og frama og í því skyni reyndi hann að draga trúverðugleika Ásu í efa, en slíkt væri fyrir neðan allar hellur enda hefði lögregla gefið skýrt út að Ása væri ekki grunuð um nokkuð misjafnt og hafi ekkert vitað um meint voðaverk eiginmannsins.
Rey ræddi við The Sun og sagði að vitnið sem sá til Rex með Shannan sé tvímælalaust trúverðug.
„Hún er svo sannarlega trúverðug og hefur engar annarlegar hvatir fyrir því að stíga fram. Hún vill ekki vera nafngreint, hún er hvorki að leitast eftir því að fá útgáfusamning eða selja sögu sína til kvikmyndagerðafólks. Hún er bara að reyna að gera það sem rétt er,“ sagði lögmaðurinn.
Því næst nýtti hann tækifærið til að skjóta föstum skotum á Ásu Guðbjörgu, sem nýlega fékk talsverða fjárhæð greidda í kjölfar GoFundMe-söfnunar.
„Hún [vitnið] er ekki að sækjast eftir gróða, líkt og sumir – eins og Ása Ellerup – gera. Hún steig ekki fram fyrir neitt af þessu. Hún glímir ekki við fíknisjúkdóm, hún er ekki í vændi. Hún er hlutlaust vitni og afburðagreind svo minni hennar er sérstaklega gott. Þegar þú tekur þetta allt saman, ásamt þeim sönnunargögnum sem hún hefur deilt, þá er þetta fremur sannfærandi frásögn sem sýnir fram á möguleg tengsl milli Shannan og manns sem er sakaður um að vera raðmorðingi. Þetta grefur ekki undan öðru sem við höfum grafið upp um mögulega sakborninga, heldur sýnir að mögulega vissi Heuermann hver Shannan Gilbert var. Og þetta má allt rekja aftur til símtalsins frá Shannan þar sem hún sagði – Þau eru að reyna að drepa mig.“
Varðandi vitnið sem segist hafa verið á heimili Ásu og Rex á sama tíma og Karen Vergata þá sagðist hún hafa mætt þangað í kynsvall. Þar hafi hún boðist til að stunda kynlíf með Ásu. Ása hafi afþakkað en þess í stað spjallað við þetta meinta vitni. Þar hafi hún lýst því yfir að eiginmaður hennar, Rex, hefði „flutt hana frá heimalandi sínu og að allt sem hún ætti, hefði hann gefið henni“.
Þessi lýsing vitnisins vekur þó strax upp efasemdir. Ása flutti ekki til Bandaríkjanna til að vera með Rex. Foreldrar hennar fluttu til Bandaríkjanna þegar hún var kornabarn og hún hefur búið þar síðan. Netverjar á umræðusvæðum um morðin hafa velt því fyrir sér hvort þetta meinta vitni hafi séð umfjöllun fjölmiðla um að Ása sé íslensk og dregið ályktun þaðan um að hún hljóti að hafa flutt frá Íslandi til að giftast Rex. Það gæti þó ekki verið fjarri lagi, enda bjó Ása í New York langt áður en Rex kom inn í líf hennar. Þar býr eins faðir hennar og yngri systir hennar.
Ray virðist þó trúa vitninu sínu skilyrðislaust og hefur gagnrýnt lögreglu fyrir að halda Ásu utan við rannsóknina. Hár hennar hafi fundist á þremur hinna látnu og samkvæmt þessu meinta vitni þá hafi hún vitað að því að maður hennar væri að kaupa sér vændi og leyft því að viðgangast.
„Auðvitað kemur hún við sögu. Hún þarf að vera sakborningur, ef hún er það ekki – þá er eitthvað að rannsókninni. Ég veit ekki hvað lögreglan er í raun og veru að skoða þessa daganna, og það er ekki endilega mitt hlutverk að vita það. Kannski eru þeir að skoða Ásu nánar, en ef þeir eru ekki að því þá ættu þeir tvímælalaust að gera það. Þeir komast ekki hjá því.“
Það ber að ítrekað að Ása Ellerup er ekki til rannsóknar, það hefur lögreglan í Bandaríkjunum staðfest. Hún hefur sjálf lýst því hvernig lífi hennar hafi verið snúið á hvolf, heimili hennar rústað, fótunum kippt undan henni og hún hafi komið alfarið af fjöllum þegar maður hennar var ákærður. Hún hefur sótt um skilnað frá Rex og glímir við alvarleg veikindi, en hún er með tvenns konar krabbamein ásamt öðrum kvillum og enga sjúkratryggingu. Söfnuninni sem Ray gerir tortryggilega er ætlað að standa straum af læknakostnaði og uppihaldi hennar og tveggja barna hennar. Stuðningsmenn Ásu og lögmaður hafa ítrekað bent á að hún sé þolandi í þessum aðstæðum og því sé það engin vanvirðing við þær látnu þó að Ása fái hjálp og stuðning. Hún hafi ekkert unnið sér til saka.