fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Eiríkur fyrirgefur hattaþjófinum – „Þá stóð lögreglan í dyrunum með hattinn“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 2. nóvember 2023 12:10

Hatturinn er einkennismerki Eiríks. Lögreglan fann hattinn og færði honum hann á miðjum upplestri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl lenti í óskemmtilegri lífsreynslu þegar hattinum hans var stolið í sundklefa á Egilsstöðum. Betur fór en á horfðist því að hattinum var skilað í miðjum bókaupplestri.

Eiríkur er þessa dagana í heilmikilli upplestrarferð um landið, næstum 40 stopp á tæpum mánuði, til að kynna nýja veglega skáldsögu, Náttúrulögmálin. Hann er búinn með Vestfirði og Norðurland og er þessa dagana á Austurlandi. Þegar DV náði tali af Eiríki var hann á leiðinni frá Egilsstöðum yfir á Borgarfjörð.

Það var í gær sem hattinum hans var stolið í sundklefanum. „Það var ekki pláss fyrir hattinn minn í skápnum þannig að ég setti hann ofan á skápinn og ýtti honum aftarlega. Þegar ég kom fram var hann horfinn,“ segir Eiríkur.

Ræstir voru út strákar í skólasundi til að hjálpa við að leita í skápum og uppi um allt. Höfðu þeir ekki erindi sem erfiði og mátti Eiríkur ganga hattlaus út úr lauginni.

„Ég var miður mín. Ég er búinn að vera með hatt ansi lengi. Ég fékk fyrsta kúluhattinn minn 18 ára og ég er 45 í dag,“ segir Eiríkur. Segja má að kúluhatturinn sé orðinn einkenni Eiríks. Hatturinn sést framan á sumum bókunum hans og þegar gert var leikrit eftir bókinni Illsku var sögumaðurinn með kúluhatt.

Kúluhatturinn í Vinnufatabúðinni

Eiríkur segist hafa átt nokkra hatta, það þurfi að skipta þeim út eins og öðrum fötum. Hann fór hins vegar að ganga daglega um með kúluhatt eftir uppljómun árið 2013.

Það var í janúarmánuði það ár sem Eiríkur var gangandi upp Laugaveginn til þess að hitta vin sinn í mat en síðdegis átti hann að taka við íslensku bókmenntaverðlaununum fyrir Illsku. Gekk hann fram hjá Vinnufatabúðinni og sá þar kúluhatt í glugganum.

Hann hugsaði um þetta alla leiðina að Hlemmi. Af hverju það hefði verið kúluhattur í Vinnufatabúðinni? Hver vinnur með kúluhatt?

Eiríkur var að kynna nýju bókina þegar hattinum hans var stolið.

„Þegar ég var kominn á Hlemm lýstur þessu niður í mig. Auðvitað! Það er ég sem vinn með kúluhatt,“ segir Eiríkur.

Sneri hann við, fór rakleiðis í Vinnufatabúðina og keypti hattinn. Frumsýndi hann svo hattinn á afhendingunni á Bessastöðum.

Ráfaði berhöfðaður um bæinn

Eiríki leið beinlínis illa eftir að hattinum hafði verið stolið. Einkenni hans hafði verið stolið.

„Ég ráfaði berhöfðaður um bæinn eins og flón, fór á lögreglustöðina og talaði við marga um þetta. Fólk setti svo auglýsingu inn á hinar ýmsu samfélagsmiðlagrúbbur til að reyna að finna hattinn,“ segir Eiríkur.

Seinna um daginn fékk hann símhringingu frá lögreglunni sem hafði farið yfir öryggismyndavélarnar í sundlauginni. Hafði lögreglan einn mann grunaðan sem fór út með bólgnari tösku en hann hafði komið með inn.

Hins vegar var ekkert hægt að sanna á hann. Ef maðurinn myndi neita væri ekkert hægt að gera.

Með hattinn í dyrunum

Með þessar upplýsingar fór Eiríkur á Tehúsið til að halda upplesturinn, hattlaus fyrir framan fullan sal af fólki.

„Ég er byrjaður að delera um guð almáttugan og ástsjúkan biskup þegar ég heyri allt í einu að vertinn Halldór æpir upp yfir sig. Þá stóð lögreglan í dyrunum með hattinn,“ segir Eiríkur.

Mikil fagnaðarlæti brutust út í salnum, ekki síst hjá Eiríki sjálfum sem buktaði sig og beygði og þakkaði lögreglunni fyrir góða þjónustu. Hann hafði þó ekki mikinn tíma til að spyrja um málið, enda í miðri dagskrá.

Uppleggið var samt að maðurinn hefði játað og skilað hattinum.

Allt fyrirgefið

„Í mínum bókum er allt fyrirgefið. Ef maður breytir rétt eftir að hafa breytt rangt fær maður fyrirgefningu,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segist ætla að passa betur upp á hattinn í framtíðinni. Hann fer mikið í sund og segir að vissulega sé það vandamál að víða séu ólæstir skápar. „Ætli ég biðji ekki starfsfólkið um að geyma hann á meðan ég syndi,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“