fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Segir fyrirhugað leikverk um Heiðar snyrti vanvirðingu gegn brotaþolum hans – „Er mikilvægara að þjóna listinni?“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 31. október 2023 11:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Heiðar hefur hlotið dóm fyrir að brjóta á ungum mönnum og í dómskjölum eru fleiri ungir menn sem lýsa hvernig hann braut á þeim. Þetta er ekki orðrómur, þetta er staðfest með dómi,“ segir Drífa Snædal talskona Stígamóta. 

Í aðsendri grein á Vísi með yfirskriftinni Hagur brota­þola ekki á blaði gagnrýnir Drífa fyrirhugaða uppsetningu Borgarleikhússins á leikverkinu „Kvöldstund með Heiðari snyrti“ sem sýna á í janúar á næsta ári en byrjað er að auglýsa verkið.

„Á facebooksíðu leikskáldsins lýsir hver um annan þveran áhuga á að sjá verkið, þar með er Heiðar sjálfur og fjölskylda hans, en leikskáldið var í samráði við Heiðar við vinnslu verksins,“ segir Drífa og segir brotaþola mjög ósátta við leikverkið og hafa komið því á framfæri við Borgarleikhúsið. 

„Það skiptir engu máli, líðan brotaþola er ekki viðurkennd og áfram heldur vinnan. Brotaþolar hins vegar upplifa vanvirðingu gagnvart sér, alvarleika brotanna og afleiðingum. Er mikilvægara að þjóna listinni en að virða líðan brotaþola?“

Leikverkið fyrirhugaða er eitt þriggja dæma úr umræðu síðustu daga sem Drífa fjallar um og segir dæmi um „hvernig líðan brotaþola er að engu gerð, smættuð, ekki tekið mark á eða ekki sett í forgrunn í umræðu eða við ákvarðanatöku. Það ætti hins vegar að vera það fyrsta sem umræðan snýst um – alltaf.“

Drífa bendir á að í okkar samfélagi er „mjög erfitt að fá viðurkenningu á að brot hafi átt sér stað og enn erfiðara að fá einhvers konar réttlæti. Reyndar eigum við sem samfélag mjög langt í land að viðurkenna og virða brotaþola, hvað þá að taka tillit til þeirra,“ segir Drífa.

Styttan af séra Friðriki Friðrikssyni

Annað dæmi er styttan af séra Friðriki Friðrikssyni sem DV hefur fjallað ítarlega um.  Segir Drífa sögusagnir og frásagnir af barnaníði séra Friðriks nú á allra vörum og vitnisburðir um slíkt berast víða að. 

Sjá einnig: Var tíu ára og hræddur – „Þreifar á því sem fyrir verður, þar á meðal kynfærunum“

„Það er stungið á kýli og úr kemur gusa – eins og oft er í svona málum. Umræðan um styttuna og önnur minnismerki fylgja í kjölfarið og það er merkilegt að verða vitni að því að önnur sjónarmið en líðan brotaþola eru í forgrunni í þeirri umræðu. Sú vanlíðan sem það hlýtur að hafa valdið og veldur brotaþolum að hafa þessa styttu fyrir augum á að vera aðal málið í umræðunni. Það hlýtur að auka vanlíðan og viðhalda afleiðingum fyrir brotaþola, sérstaklega ef hugsanlegir (líklegir) brotaþolar hafa ekki sótt sér aðstoð við að vinna úr ofbeldinu. Er mikilvægara að hampa minningu hans en að taka tillit til líðan brotaþola?“

Rannsókn meistaranema á brotaþolum

Þriðja dæmið sem Drífa tiltekur er rannsókn meistaranema á brotaþolum, en svo virðist sem Siðanefnd Sjúkrahússins á Akureyri hafi gefið leyfi til starfsmanns sjúkrahússins, sem einnig er meistaranemi til að hafa samband við brotaþola sem sótti aðstoð á neyðarmóttökuna. 

„Brotaþoli hefur lýst því í fjölmiðlum hvað þetta kom illa við hana, ýkti afleiðingarnar af nauðguninni og kom í veg fyrir framfarir í líðan,“ segir Drífa sem segir að þarna virðist sem hagsmunir meistaranema hafi verið teknir framar hagsmunum einstaka brotaþola og grundvallarkröfur vísindarannsókna sniðgengnar „en í lögum segir að þær skuli byggjast á virðingu fyrir mannhelgi þátttakenda. Líðan brotaþola hefur augljóslega ekki verið þarna í forgrunni. Eru rannsóknarhagsmunir stærri en líðan brotaþola og afleiðingar fyrir hann?“

Drífa segir að það ætti að vera eðlilegt að taka mið af reynslu brotaþola í kynferðisbrotamálum (sem öðrum) og gæta þess að gera ekki illt verra. 

„Að verða fyrir kynferðisofbeldi getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fólk og jafnvel alla ævi. Algengast er að brotaþolar upplifi skömm og sektarkennd, ofbeldið hafi áhrif í nánum samskiptum og sjálfskaðandi hegðun í kjölfar ofbeldis er raunveruleiki margra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar