Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 4. ágúst 2022 kastað eða slegið glerglasi í höfuð manns með þeim afleiðingum að brotaþolinn hlaut 15 mm lóðrétta, djúpa rispu á hægri augabrún og rispu á hægri kinn.
Atvikið átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn „The Drunk Rabbit“ í Austurstræti.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Brotaþolinn krefst tveggja milljóna króna í miskabætur.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. nóvember næstkomandi.