Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af erlendum veiðiþjófum í Elliðaánum fyrr í dag. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu nú fyrir stundu. Lögreglan fékk ábendingu um að þrír menn væru að veiða í leyfisleysi í ánni og fór þegar á vettvang. Í ljós kom að mennirnir þrír voru að erlendu bergi brotnir og höfðu ekki hugmynd um að kaupa þyrfti veiðileyfi. Fengu þeir tiltal og var þeim svo vísað af vettvangi.
Stærsta verkefni dagsins var þó eldsvoði í þaki verslunarhúsnæðis við Réttarháls 2. Verið var að vinna í þakinu þegar eldur komst í þakið. Starfsmenn, sem voru við vinnu, reyndu að slökkva eldinn en án árangurs. Slökkvilið kom svo á staðinn og náði að slökkva í honum nokkuð hratt og örugglega.
Auk þessara verkefna höfðu fimm minniháttar umferðarslys átt sér stað í dag.