Myndband af fararstjóra löðrunga nemanda á Hótel Örk í Hveragerði hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla undanfarið. Fararstjórinn hefur verið kærður til lögreglu vegna atviksins.
Umræddur nemandi er bresk unglingsstúlka sem var hér stödd í skólaferðalagi ásamt samnemendum sínum og kennurum úr skólanum Harris Girl Academy. Hópurinn sneri heim um helgina en breskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið í dag.
Stúlkan er hörundsdökk og hefur móðir hennar nú stigið fram í samtali við Independent og segist sannfærð um að fararstjórinn sé haldin kynþáttafordómum.
Móðirin, Pricilla, segir að löðrungurinn hafi átt sér stað eftir að dóttir hennar kom vinkonu sinni til varna er fararstjórinn öskraði á hana.
„Ég get ekki sofið,“ sagði Pricilla sem segist ekki komast hjá því að hugsa að kynþáttafordómar hafi verið hér á ferðinni. Fararstjórinn hafi upphaflega öskrað á vinkonuna, sem er hvít, en svo þegar dóttir Pricillu steig inn í aðstæður þá hafi hún verið slegin.
„Dóttir mín bað hana kurteisislega að slaka á og þá var hún slegin. Ef barnið mitt væri hvítt þá held ég að þetta hefði ekki gerst. Fararstjórinn sló ekki vinkonu dóttur minnar, sem er hvít, eða einu sinni slegið í átt að henni. En henni fannst í lagi að slá barnið mitt. Þetta er raunveruleikinn sem við búum við. Svart fólk nýtur ekki virðingar, það er ekki talið hafa gildi og er ekki samþykkt.“
Stúlkan sjálf sagði við blaðamann að hún hafi aldrei lent í fordómum áður og það hafi ekki hvarflað að henni að það myndi gerast í fyrsta sinn á Íslandi.
„Ég hef aldrei horfst í augu við kynþáttafordóma og ég hélt aldrei að ég myndi upplifa það, í fyrsta sinn í lífinu, í þessari ferð.“
Pricilla tók fram að dóttir hennar hafi verið spennt fyrir ferðinni og hefði Pricilla aldrei leyft henni að fara ef hún hefði haldið að þetta væri möguleiki.
„Dóttir mín mun aldrei gleyma þessu […] Hún er í áfalli; hún á sitt eigið rúm en hefur sofið í mínu síðan þetta gerðist og biður mig um að fara ekki í vinnuna.“
Lögregla á Íslandi hefur sent Pricillu póst þar sem segir að rannsókn sé í fullum gangi og benti fjölskyldunni á að þau geti lagt fram miskabótakröfu.
Hótel Örk segir í yfirlýsingu að fararstjórinn hafi ekki verið á þeirra vegum.
„Það er mikilvægt að það komi fram að umræddur fararstjóri er ekki starfsmaður hótelsins; hún var gestur sem dvaldi á hótelinu, alveg eins og nemendurnir. Í kjölfar atviksins mæltum við strax með því að haft yrði samband við yfirvöld, sem í þessu tilviki var lögreglan á íslandi. Lögreglan framkvæmdi rannsókn og það er venja á Íslandi að fólk sé ekki handtekið á meðan mál er til rannsóknar nema í tilvikum sem varða alvarlegt ofbeldi eða aðstæðum sem ógn er af.“
Sjá einnig: Löðrungaði nemanda á Hótel Örk – Fararstjóri kærður