En Ísraelsmenn þurfa einnig að huga að norðurlandamærum sínum, landamærunum við Líbanon en þar hafast Hizbollaliðar við en þeir eru leppar Írana og eru vel vopnum búnir.
Í ræðu, sem Benjamin Netanyahu forsætisráðherra, flutti fyrr í vikunni sagði hann að loftárásir á mörg hundruð skotmörk á Gaza væru aðeins upphafið á hefndinni vegna árásarinnar á laugardaginn. Hefnd sem margar kynslóðir óvina Ísraels munu muna.
Ísraelsher er nú að byggja upp mikinn liðsafnað við Gaza en ríkisstjórnin hefur sagt að landhernaður sé nauðsynlegur til að gera út af við Hamas.
Það hefur ekki haldið aftur af Ísraelsmönnum að Hamas hefur hótað að taka gísla af lífi ef loftárásir eru gerðar á Gaza án þess að senda viðvörun fyrst til íbúanna. Það hefur hingað til verið óskrifuð regla í átökum Ísraels og Hamas að þegar Ísraelsmenn gera loftárásir á Gaza senda þeir viðvörun fyrst um hvert skotmarkið er svo óbreyttir borgarar hafi tækifæri til að forða sér. Nú hafa Ísraelsmenn hætt að senda viðvaranir af þessu tagi.