Ástandið er svo slæmt að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fá herinn til að aðstoða lögregluna og heimildir hennar til símhlerana hafa verið stórauknar.
Glæpagengin laða unga pilta til sín og eru dæmi um að piltar allt niður í 13 ára hafi fallið í átökunum. Einnig eru dæmi um að barnungir piltar hafi framið morð á vegum glæpagengja.
En hvað fær barnunga pilta, allt niður í 11 ára, til að ganga til liðs við glæpagengi?
Þessar spurningu var nýlega varpað fram á vef Danska ríkisútvarpsins. Fram kemur að stundum sæki piltarnir sjálfir í að verða meðlimir í glæpagengjunum en stundum lokki gengin þá til liðs við sig.
Það er gott fyrir gengin að fá börnin til liðs við sig því þau fá vægari refsingu fyrir afbrot sín vegna aldurs.
Carsten Norton, blaðamaður hjá Frihetsbrevet, hefur skrifað bækur um glæpagengin og starfsemi þeirra og var hann til svara hjá Danska ríkisútvarpinu um málið. Hann sagði að þrjár ástæður séu aðallega fyrir því að ungir piltar gangi til liðs við glæpagengin.
Þeim leiðist
Norton sagði að þegar hann ræði við fólk, sem tilheyrir glæpagengjum og fagfólk, þá segi það oft að börnin gangi til liðs við þau því þeim leiðist. Þetta hljómi ótrúlega en staðan sé þannig að í mörgum þeirra hverfa, þar sem glæpagengin starfa og gangi vel að fá unga pilta til liðs við sig, séu margir piltanna einir á báti. Þeim leiðist og sjá eitthvað spennandi og aðlaðandi hjá glæpagengjunum.
Samheldni
Annað sem laðar piltana að gengjunum er samheldnin. Norton sagði að það geti laðað suma pilta að þeim því þeir séu í raun og látnir sjá alfarið um sig sjálfir og þeim finnist þeir standa betur að vígi innan glæpagengis en utan þess. Þeir heillist því af loforðum um bræðralag.
Umbun
Hann sagði að þriðja ástæðan geti verið að piltarnir vilji fá eitthvað af því sem þeir sjá að eldri félagar í glæpagengjunum hafi. Ein af þeim aðferðum sem glæpagengin noti sé að biðja piltana um að geyma tösku, með einhverju ólöglegu í, um hríð. Síðan fá þeir umbun fyrir vikið, kannski iPhone eða merkjavöru.
Í töskunni geti verið fíkniefni, peningar eða skotvopn. Næsta skref inn í glæpagengið geti verið að pilturinn sé fenginn til að standa á verði og síðan fremja eitthvað afbrot eða ofbeldisverk.