Lögregluaðgerð í Flúðaseli í gær vakti mikla athygli. Vísir greindi frá en lögregla naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við handtöku þriggja manna. Handtökurnar tengjast ráni og ofbeldisbrot á höfuðborgarsvæðinu aðfaranótt þriðjudags.
Mynd náðist frá aðgerðunum sem sýnir lögreglumenn leiða einn manninn frá húsinu og er hann klæddur í nærbuxur einar fata. Þetta vakti hörð viðbrögð hjá Afstöðu, félagi fanga, sem birti yfirlýsingu vegna málsins í gær. Afstaða sakar lögreglu um að svipta fólk mannlegri reisn með því að handtaka það fáklætt.
Í viðtali við Vísi í gær sagði Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður félagsins: „Það er eiginlega ekki hægt að afsaka þetta í mínum huga.“
Nágranni hinna handteknu segir hins vegar í samtali við DV að maðurinn hafi sést spranga um stigagang hússins á nærbuxum einum fata. Að sögn viðkomandi leigja mennirnir þrír herbergi í húsinu en ekki íbúð.
„Það er búið að vera vesen með þessa gaura í smá tíma. Hafa stolið frá öðrum íbúum stigagangsins,“ segir nágranninn. Einnig sé orðrómur um fíkniefnasölu úr leiguherberginu en það er ekki staðfest. „En fyrir 2-3 vikum var lögreglan með húsleit hjá þeim,“ segir nágranninn.
Viðkomandi segist ennfremur hafa séð manninn hrækja á gólfið í stigaganginum, er hann var klæddur í nærbuxur einar fata.