Nýja Vínbúðin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem greint er frá væntanlegu jólabjóradagatali og gengist við mistökum sem urðu við samsetningu dagatalsins í fyrra en mistökin leiddu til þess að Neytendastofa dæmdi Nýju Vínbúðina brotlega og sektaði. Tilkynningin er eftirfarandi:
„Jólaundirbúningurinn er hafinn hjá Nýju Vínbúðinni. Nýja Vínbúðin nýtur nokkurrar sérstöðu meðal íslenskra vefverslana með áfengi út af áherslu á sölu jóladagatala síðustu ár. Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju Vínbúðarinnar, segir árið í ár enga undantekningu.
„Við misstigum okkur aðeins í samsetningu jólabjóradagatalsins í fyrra. Við drögum lærdóm af þeim mistökum og gerum betur í ár,“ segir hann. Núna hafi bæði pakkningarnar utan um dagatalið verið betrumbættar og í dagatalinu verði eingöngu að finna gæða jólabjór frá Íslandi, Danmörku og Þýskalandi. Auk jólabjóradagatals hefur verslunin í nokkur ár boðið úrval dagatala með sterku áfengi. „Þar njóta viskídagatölin einna mestra vinsælda, en þau eru til af nokkrum stærðum og gerðum. Algengt verð er frá 25 til 30 þúsund króna, svo eru nokkur frá 40 og upp í 60 þúsund,“ segir Sverrir.
Flaggskipið í viskídagtölunum sé hins vegar Very Old and Rare Whisky aðventudagatalið, en það kostar ríflega 1,5 milljónir króna. „Það er gaman að geta boðið upp á það, þó ekki væri nema til að gefa áhugasömum kost á því að láta sig dreyma um það. Í því eru fágætir sopar á borð við 40 ára gamalt Bunnahabhain frá Islay, 60 ára Glenfarclas Speyside viskí og 32 ára japanskt Karuizawa viskí sem eimað var árið 1976.“
Til þess að tryggja að allir fái óskadagatalið sitt tímanlega fyrir jól segir Sverrir Einar Nýju Vínbúðina leggja sig fram um að vera eins snemma tilbúna og hægt er með framboð sitt af dagatölum. Þau eru seld í forsölu og svo afhent 21. nóvember, í vikunni fyrir aðventu.“